148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það er kannski það sem verið hefur að koma í ljós undanfarin misseri, og er mat manna sem sett hafa sig djúpt inn í staðarvalspælingar sem snúa að staðsetningu nýs sjúkrahúss, að sú vinna sem unnin var 2015 var því miður að öllum líkindum miðuð að því að komast að sömu niðurstöðu og áður. Það er ýmislegt í verklaginu þar sem bendir til þess.

Nú langar mig til að kasta fram annarri spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Ef mönnum tekst að sýna fram á það á næstu mánuðum að — ég ætla nú ekki að segja kastað hafi verið til hendinni. Það er betra að orða spurninguna svona: Er einhver sú nálgun eða úttekt á þeim gögnum sem fyrir liggja sem gætu orðið til þess að hæstv. forsætisráðherra væri tilbúin að skoða að fara í gegnum nýja staðarvalsgreiningu eða álítur hæstv. forsætisráðherra að málið sé afgreitt og útrætt endanlega og að ekki þurfi að skoða það frekar?