148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Svona í lok umræðunnar langar mig að nefna að það lítur út fyrir að rekstrargrundvöllur verði tryggður fyrir allar heilbrigðisstofnanir á landinu sem eru níu. Enn sem komið er er samt sem áður ekki búið að tryggja það varðandi Landspítalann – háskólasjúkrahús þótt það hafi verið gert með hinar átta. En það er góður tónn í hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur. Þótt 2. umr. klárist í kvöld, án þess að það sé fyllilega í höfn, eigum við samt sem áður eftir að klára 3. umr., eftir að klára fjáraukann, þar er líka hægt að úthluta, og svo á eftir að klára lokafjárlög fyrir 2016. Þetta eru þrjár leiðir þar sem hægt er að setja inn aukið fé. Ég mun, eins og ég hef gert ítrekað síðan ég kom á þing, fylgjast með því að heilbrigðiskerfið haldi í það minnsta sjó. Ég mun fylgjast með því hvort hæstv. heilbrigðisráðherra takist ekki að tryggja þá fjármuni inn í rekstur heilbrigðiskerfisins. Lágmarkið er að halda sjó. Annars er það falleinkunn fyrir heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Við fylgjumst með. Við erum á vaktinni. Takk.