148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:30]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, það eru nefnilega önnur úrræði. Ráðherra getur breytt skiptingu fjárheimilda innan síns málefnaflokks. Svo eru þessir liðir eins og hv. þingmaður gat um, einhverjir pottar eða hvað þetta kallast, sem ríkisstjórnin hefur úr að spila til að mæta því þegar hamfarir verða á Grænlandi eða annað slíkt. Ég veit að fyrri ríkisstjórnir hafa beitt þessu.

Svo erum við að sjálfsögðu með varasjóðina, þannig að það er fullt af fyrri skrefum sem þessi ríkisstjórn hunsar. Þegar ég segi að það sé ekki flokkspólitískt mál að vilja breyta vinnubrögðunum: Jú, þetta er flokkspólitískt mál að því leyti að meiri hlutinn leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð en við í minni hlutanum gerum það ekki. Þess vegna skiptir máli að við tökum þessa umræðu með þessum hætti, sem ég held að við séum að gera hér. Henni lýkur að sjálfsögðu ekki hér. Ef það eru einhverjar lögfræðilegar spurningar, um hvaða stöðu þingið sé í ef við höfnum þessu, þurfum við að kalla eftir góðu áliti lögfræðings á vettvangi fjárlaganefndar til að fá úr því skorið (Forseti hringir.) hvað verður með þær ákvarðanir sem við höfnum, sérstaklega þegar greiðslur hafa verið inntar af hendi.