148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á hverjum lendir hækkun kolefnisgjalds? Jú, skattar eru greiddir af fyrirtækjum og fólki, ég átta mig á því. En heldur hv. þingmaður að það lendi ekki á almenningi að hafa barnabótaflokk fjársveltan eins og raun ber vitni? Lendir það ekki á almenningi að Landspítalinn getur ekki einu sinni haldið í horfinu ef pólitík hans verður ofan á eins og raun ber vitni? Lendir það ekki á almenningi að hafa vaxtabótakerfið með þeim hætti að helmingur þeirra sem fengu vaxtabætur er dottinn út úr kerfinu? Lendir það ekki á almenningi úti á landi ef þið getið ekki einu sinni skilað fjármunum til stofnana þar svo þær stofnanir geti haldið sjó? Þetta lendir allt á almenningi. Þetta er pólitík sem ég er að gagnrýna.

Hvað varðar auðlegðarskattinn, eins og hv. þingmaður veit var hann dæmdur löglegur. Ég hef talað fyrir því að við getum aðeins útfært þá hugmynd og haft tekjutengdan auðlegðarskatt einmitt til að mæta þeim hópi sem ég veit að hv. þingmanni er annt um, einmitt fólki sem á miklar eignir en hefur litlar tekjur. Þannig að við getum alveg verið kreatíf — nei, ég ætlaði nú ekki að segja það — við getum alveg verið frumleg í skattlagningu.

Kjarni málsins er að þjóðin hefur verið að kalla eftir auknum peningum. Það er verið að kalla eftir auknum jöfnuði og sanngirni. Einhvers staðar þurfa peningarnir að koma. Við þurfum að hafa öflugt hagkerfi. Við þurfum að hafa hagvöxt. Við þurfum að hafa háa landsframleiðslu per einstakling, ég átta mig fullkomlega á því. En við skulum líka hafa myndarlegan ríkissjóð sem tekur á þeim vanda sem blasir augljóslega við á meðan við erum 11. ríkasta land í heimi. Á meðan ákveðnir hópar í samfélaginu eru skildir eftir þurfum við að hafa velferðarkerfi sem er ekki bara eitthvert lágmarksöryggisnet heldur öflugt eins og þau lönd sem við berum okkur helst saman við, Norðurlöndin, hafa. Við eigum ekki að stefna að einhverju lágmarki þegar kemur að velferðinni. Við eigum að stefna að öflugri velferð. Við eigum ekki að nálgast velferðarkerfið eins og einhvers konar ölmusukerfi eða fátækrastyrk, heldur kerfi sem einmitt hjálpar öllum Íslendingum að blómstra á eigin forsendum.