148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég talaði fyrr í umræðunni um að frumvarpið væri eins konar óútfylltur tékki til ríkisstjórnarinnar til þess að gera það sem við vildum. Mig langar til þess að leiðrétta það. Það hlýtur að vera þannig að það sem við erum að samþykkja, af því að við höfum ekki fengið neina betri útskýringu á því hvaða heimildir við erum í rauninni að samþykkja, sé það sama og síðast plús síðan það sem útskýrt er sérstaklega varðandi útgjaldasvigrúm og þau verkefni sem eru sérstaklega talin upp í fjárlagafrumvarpinu. Það sem ég hef helst áhyggjur af er að hinn stóri rammi sem settur var 2017 er að mestu leyti óútskýrður. Hann er að sjálfsögðu fylltur með ýmsum stofnunum og ráðuneytum o.s.frv. sem hafa mjög vel skilgreind hlutverk og ábyrgð sem þarf að axla. Sá hluti er alla vega mjög vel skilgreindur.

Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er að það voru verkefni innan forsætisráðuneytisins þar sem búið var að forgangsraða innan rammans. Um er að ræða 250 milljónir fyrir upplýsingatækniverkefni, sem er hærri upphæð en útgjaldasvigrúmið í heildina. Í samspili þessara þátta var aðhaldsstigið útgjaldasvigrúm minnkað þó að augljóslega væri þar verið að tala um ný verkefni, en það þurfti að útfæra þau innan ramma af einhverri undarlegri ástæðu.

Ég vil síðan vekja athygli á því hvað varðar eftirlit með framkvæmd fjárlaga, þegar þar að kemur á þessu ári, að sundurliðunin á rammanum er eins og svartur kassi í fjárlagafrumvarpinu og umræðunni sem við erum í núna. Við verðum að opna hann betur og skoða hvað gert hefur verið á síðustu árum í þessum svarta kassa til þess að átta okkur betur á samhenginu, hvað helst óbreytt og hvað hefur breyst. Af því sem hefur breyst þá verðum við að setja spurningarmerki við hvort það sé í raun búið að veita heimild fyrir slíkum gjöldum ef þau eru ekki tilgreind sérstaklega í útgjaldasvigrúminu þar sem ný verkefni eru tilkynnt og sett samkvæmt stefnu.

Annað mál sem við höfum talað um í umræðunni er heilbrigðiskerfið. Í síðustu fjárlögum vorum við í stjórnleysi, þ.e. með starfsstjórn, sem gekk mjög vel, sérstaklega í fjárlagaumræðunni. Eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson minntist á áðan var þar ákveðið samstarf og aðhaldið hélst því að það var samkomulag um að ef við ætluðum að stinga upp á auknum gjöldum yrðum við að mæta því með tekjum á móti. Sömu ábendingu fengum við frá fjármálaráði varðandi aukin útgjöld, að þau væru ekkert nauðsynlega slökun á ríkisfjármálum ef verkefninu fylgdi kostnaður og ábatagreining sem leiddi til þess að það væri jafnvel ábatasamt að byggja t.d. eitthvað upp, og ábatinn af því í framtíðinni gæti vegið upp útlagðan kostnað. Það er því ekki slaki í ríkisfjármálum eftir því sem ég fæ best skilið.

Starfsstjórnin á þarsíðasta þingi samþykkti að skera ekki niður í heilbrigðiskerfinu og tryggja að rekstur þess mundi ekki enda í mínus árið 2017. Það var loforð sem Alþingi gaf, að þjónusta yrði ekki skert. Nú er talað um innspýtingu og áherslu á heilbrigðiskerfið en í raun og veru er haldið áfram á núllinu. Aðalástæðan fyrir því er að verið er að byggja nýjan spítala. Það er gríðarlega kostnaðarsamt. Það eru ansi margir milljarðar sem fara í það og á meðan gefast ekki tækifæri til þess að fara í eflingu rekstursins varðandi mönnun og álag og því um líkt sem er að sliga heilbrigðisstarfsfólkið nú líkt og undanfarin ár. Eins og er erum við með mjög gott heilbrigðiskerfi, en það er af því að heilbrigðisstarfsfólkið leggur gríðarlega mikið á sig til þess að halda uppi þeim gæðum sem við höfum enn þá. Slíkt álag fær fólk að lokum til að gefast upp. Það endist ekki lengi. Það er búið að endast miklu lengur en það ætti að gera, þannig að ég hrósa því sérstaklega fyrir að hafa haldið þetta út svo lengi. En ég vara við því að svona ástand getur ekki varað að eilífu.

Vandamálið við að byggja nýjan spítala er að fyrir er uppsöfnuð þörf. Þetta er ekki í rauninni innspýting í heilbrigðiskerfið. Við erum að ná núllinu aftur hvað varðar uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Þessi nýi spítali hefur verið á áætlun í 20 ár. Fram kemur í álitum um framkvæmdina að þegar loksins verði búið að byggja hinn nýja spítala og byggingarnar þar í kring verði hann í raun nær strax orðinn úreltur eða á núllinu og við þurfum strax að leggja í viðbætur til þess að eiga fyrir fjölgun framtíðarinnar til þess að lenda ekki aftur í þeirri prísund að vera með of lítið pláss, þannig að við erum á núllinu. Við erum meira að segja rétt að ná núllinu í heilbrigðiskerfinu. Það er ekki hægt að tala um innspýtingu þó að fullt af peningum fari þar inn. Við erum einfaldlega að vinna upp þann mínus sem verið hefur síðan í hruninu og einhvern tíma fyrir það jafnvel.

Í fjárlagafrumvarpinu er eilítið minnst á tekjustofna ríkisins. Mér finnst ríkisstjórnarsamstarfið milli þessara þriggja flokka kristallast í áherslunum í fjárlagafrumvarpinu. Annars vegar hafa Vinstri græn ekki fengið þær tekjur sem þau hefðu viljað afla og töluðu um fyrir kosningar, en hins vegar hafa þau að einhverju leyti fengið aukin útgjöld upp í afganginn. Það leiðir til slökunar á aðhaldinu sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi áðan og spilar áhugavert hlutverk. Í fjárlagafrumvarpinu sjálfu er talað um að tekjustofnarnir, þessir þrír tekjustofnar um tryggingagjald, virðisaukaskatt og tekjuskatt einstaklinga, séu aðaltekjulind ríkisins en að í rauninni séu þessir tekjustofnar mjög brothættir ef efnahagsaðstæður versna. Þar af leiðandi ætti það að liggja mjög vel við að breikka tekjustofnana til þess að minnka álagið á þessa þrjá risatekjustofna.

Við erum sem sagt með þrjá stóra tekjustofna en það þýðir að þegar við erum í efnahagssveiflu annaðhvort upp á við eða niður á við þá er þetta mjög gróft tæki, eins konar slaghamar til þess annaðhvort að auka hagvöxt eða að slá á þenslu. Við getum ekki stillt tryggingagjaldið, virðisaukaskattinn eða tekjuskatt einstaklinga til þess að draga úr þenslu í hagkerfinu til að hafa sveiflujafnandi áhrif. Við getum mjög illa aukið eða minnkað það aftur til þess að auka hagvöxt. Við mundum vilja hafa nákvæmari tæki þar sem við gætum stillt til þá skattstofna, í rauninni sveiflujafnara sem slíka, þar sem þenslan á sér stað en ekki yfir allt því að þessir tekjustofnar ná yfir allt samfélagið. Ef við breytum einhverju smávegis til þess að slá á þenslu á ákveðnu sviði, eins og ferðaþjónustu, hefur það áhrif á alla. Það kalla ég slaghamarsverkfæri í efnahagsstjórnun. Ríkisstjórnarsamstarfið hefur dottið niður á óheppilegustu útgáfuna af efnahagsstjórnun þar sem gjöldin eru aukin en tekjurnar, og sérstaklega breikkun tekjustofnanna, eru ekki auknar á móti. Það er miður. Kannski tekst það næst, ég veit það ekki, það var alla vega of stuttur tími til þess núna. Maður má kannski vera pínulítið bjartsýnn hvað það varðar.

Fyrir 3. umr. fjárlaga lögðum við Píratar og minni hlutinn fram nokkrar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Ég ætla að fjalla aðeins um þessar þrjár breytingartillögur. Í fyrsta lagi eru það 100 milljónir til skuldbundinna þróunarverkefna til Sameinuðu þjóðanna vegna þess að Bandaríkin gengu út úr samstarfinu. Þá bara sýnum við viðleitni okkar á móti með því að mæta þeim kostnaði sem til fellur hjá Sameinuðu þjóðunum. Hlutdeild Íslands er ekki það mikil út af fólksfjölda, en við viljum alla vega sýna fordæmi hvað það varðar til þess að halda þessari starfsemi gangandi.

Hins vegar er eitt sem valdið gæti ákveðnum straumhvörfum og kannski komið á nýjum vinnubrögðum; við erum með breytingartillögu sem veitir ríkisstjórninni fjárheimild til þess að standa undir efniskostnaði fyrir framhaldsskóla og fyrir verk- og iðnskóla. Það liggur bara í augum uppi að samþykkja breytingartillögu minni hlutans því að það væri rosalega kaldhæðnislegt ef breytingartillagan væri felld og svo kæmi hún í fjáraukalögum eftir á. Hér leggjum við til að heimildin verði gefin fyrir fram til þess að hún birtist ekki í fjáraukalögum fyrir árið 2018, sem mun líklega gerast. Eða að tekið er af varasjóðum á einhvern hátt, því að það er í rauninni útfærsla fjárauka í lögum um opinber fjármál að fara í varasjóðina. Það þarf sérstaklega að gera grein fyrir þeirri millifærslu sem fer úr varasjóði inn á framhaldsskólastigið sem væri tæknilega séð fjárauki en ekki gert eftir á eins og hefur venjulega verið gert. Ég sé tækifæri þarna, þá yrði brotið blað í sögunni og þetta gert rétt.

Hér hefur verið umræða um heilbrigðiskerfið og fjáraukann, að við notum ekki fjáraukann. Við erum í ákveðnu óvissuástandi varðandi heilbrigðiskerfið, um hvort fjármagnið dugi. Þá leggjum við til að varasjóðir þeirra málefnaflokka sem heyra undir heilbrigðisþjónustuna, almenna sjúkrahúsþjónustu, sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, varasjóðir fyrir heilbrigðisstofnanirnar, lyf og lækningavörur og fyrir hjúkrunarþjónustu og alla þá málefnaflokka sem við á, verði fullfjármagnaðir. Ef ekki er nægur peningur samkvæmt fjármögnun málefnaflokkanna, eins og óvíst er, er alla vega til varasjóður fyrir heilbrigðiskerfið. Núna er hann afskaplega lítill þannig að þó að fólk vildi gæti það ekki gripið til varasjóðs málefnaflokksins heldur þyrfti að fara í almenna varasjóðinn, sem er mun flóknara mál.

Á sama tíma tek ég skýrt fram að það er stór ákvörðun að fara í varasjóðinn. Það þarf að rökstyðja mjög vel og nákvæmlega eins og um fjáraukalög væri að ræða. Það gilda um það ákveðnar reglur og ákveðið ferli sem þarf að láta vita af o.s.frv. Ég skil því áhyggjur hv. þm. Þorsteins Víglundssonar um freistnivandann, að grípa í varasjóðinn, ef hann er þá til staðar. Alþingi þarf að vakta það hvort ráðherra fari vel með fjárheimildir málaflokksins sjálfs áður en farið er í varasjóðinn, því að það er hægt að grípa til réttmætra aðgerða áður en er farið í varasjóði.

Við vonum að þessar þrjár breytingartillögur fái brautargengi, þ.e. tillagan um Sameinuðu þjóðirnar, um varasjóðina fyrir heilbrigðiskerfið eins og það leggur sig og síðan breytingartillaga fyrir efniskostnað vegna verk- og iðnskóla í framhaldsskóla.