148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:42]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Ég geri mér grein fyrir því, og það er mjög vel orðað, að þarna þurfum við að gera með okkur samfélagssáttmála. Það er mikil áskorun í því fólgin því að þetta er einstakur málaflokkur, mjög viðkvæmur. Haft er á orði að það sé einn af grunnþáttum í hverju samfélagi að hafa trygga, örugga heilbrigðisþjónustu. En almenningur er að verða mjög vel upplýstur. Núna gildir það ekki lengur, hvorki úti á landi né neinu öðru samfélagi, að það sé bara einhver á stöðinni. Fólk gerir kröfu um góða þjónustu. Ég held að málið vinnist fyrst og fremst á gæðunum. Við eigum að tala um meira um gæði en að tryggja hausana. Ég varð var við það í mínu starfi að menn voru uppteknir af því að þeir svæfu ekki rólegir nema einhver „haus“ væri tiltækur. En það er auðvitað mikilvægt að menn búi við öryggi.

Ég held að við verðum að fara að búa okkur undir það ef við ætlum að halda þessu landi öllu í byggð, sem við viljum auðvitað gera, að skorða þennan mikilvæga þátt. Það er ekki þannig í dag. Stjórnendur í heilbrigðisþjónustu glíma oft og tíðum við ómöguleikann, að manna staði sem eru mannaðir sumpart vegna hefðanna. En það vill enginn gefa eftir. Mörg byggðarlög hafa séð á eftir prestinum, síðan löggunni, nú á líka að taka frá okkur lækninn eða hjúkrunarfræðinginn. Fólk upplifir það sem undanhald landsbyggðar.