148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvaða hvatir myndu liggja að baki þess að setja þetta ekki í fjárlög heldur vilja fara í einhverja varasjóði. Ég skil bara ekki hvers vegna í fyrsta lagi þau myndu vilja það. Hverju er áorkað með því? Ég tortryggi slíkt vegna þess að það er nú því miður svo mikið um það að eitthvað er sagt og síðan misskilur annar það. Það er frekar dæmigert í þessu starfi, bæði vegna þess að fólk talar ekki alltaf sama málið en líka vegna þess að þegar hagsmunir eru fyrir því að misskilja eitthvað eða skilja einhver smáatriði öðruvísi er meiri tilhneiging til þess að þau séu skilin öðruvísi eða misskilin.

Sú hugmynd að taka þetta úr varasjóði, það er svolítið merkilegt stundum hvað Alþingi á auðvelt með að brjóta reglur sem það setur sér sjálft. Það erum við sem setjum þingsköp, við settum lög um opinber fjármál. Kannski ekki nákvæmlega þeir einstaklingar sem hér standa en alla vega sá sem hér stendur. Ég man ekki betur en að hv. þingmaður hafi verið með í því að setja þessi lög. Enda góð lög. En við ættum líka að fylgja þeim. Og þegar tillögur koma um að fylgja þeim einhvern veginn ekki af ástæðum sem ég get ekki ímyndað mér miðað við að markmiðið er skýrt. Við vitum hvers vegna við erum að gera þetta, vitum nákvæmlega hver upphæðin er. Það er alveg skýrt. Það er ekkert vafamál, engin flækja hérna að leysa. Þetta er bara spurning um hvort meiri hlutinn hyggist fjármagna þessa breytingu, sem hann blessunarlega samþykkti með því að taka til baka tillögu sína um að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði, förum ekki of djúpt í lagatæknina, eða hvort hann ætlar að draga úr getu framhaldsskólanna til að bjóða upp á iðnnám. Það eru bara þessir tveir kostir.

Ég trúi því ekki upp á hv. þingmenn meiri hlutans að þeir ætli að greiða atkvæði gegn því að fjármagna þessa breytingu sem þeir hafa sjálfir staðið fyrir. Ég trúi því bara ekki upp á þá. Ég þarf að sjá það. Ég er enn þá (Forseti hringir.) það blautur á bak við eyrun hér á Alþingi að ég trúi því ekki.