148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Á þeim 15 mínútum sem ég hef þá vil ég tala fyrst og fremst um tvennt, annars vegar þau tæki sem stjórnvöld búa yfir til þess að vinna gegn auknum ójöfnuði í samfélaginu og hins vegar um framhaldsskólana og stöðu þeirra.

Við höfum í mörgum ræðum í umræðu um fjárlagafrumvarpið og um ýmis lög sem þarf að breyta vegna fjárlagafrumvarpsins talað um mikilvægi þess að hækka barnabætur, sem skerðast langt undir lágmarkslaunum. Við höfum einnig rætt að það þurfi að breyta vaxtabótum, þar þurfi að hækka eignarviðmið vegna þess að fasteignamat í landinu hefur náttúrlega vaxið óskaplega mikið að undanförnu og meira á ákveðnum svæðum. Sú hóflega hækkun sem við í minni hlutanum leggjum til kæmi aðeins til móts við slíkt og fleiri mundi njóta vaxtabótanna.

Þessi tvö stýritæki, þessi tvö tæki sem eru svona árangursrík til þess að auka á jöfnuð í samfélaginu, hafa verið veikt á undanförnum árum. Ég fékk einu sinni að vinna fjárlagafrumvarp. Það var haustið 2012 sem við vorum að ganga frá fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013. Þá sáum við til lands eftir að hafa unnið á 216 milljarða fjárlagagati. Við gátum sett fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 þar sem við lokuðum gatinu. Um leið og við sáum til lands hækkuðum við barnabæturnar. Við vildum taka skref í áttina að því sem gerist í hinum norrænu ríkjunum þar sem barnabótum er beitt með árangursríkum hætti til þess að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Við vorum líka með þrepaskipt tekjuskattskerfi. Það er í stefnu okkar í Samfylkingunni að fjölga frekar þrepum en fækka, en um leið og ný ríkisstjórn tók við þá var þrepunum fækkað og dregið úr vægi barnabótanna sem höfðu verið hækkaðar um 30% — það er nánast sama tala sem er verið að leggja til núna að Alþingi samþykki til þess að verja til barnafjölskyldna í landinu og var samþykkt haustið 2012, fyrir fimm árum síðan.

Það er markvisst verið að veikja þessi kerfi sem eru partur af velferðarkerfinu og eru árangursrík. Þessu viljum við í minni hlutanum breyta. Meiri hlutinn vill það ekki. Það er misjafnt hvað sagt er eftir því hver talar úr stjórnarmeirihlutanum, en sumir segja eins og hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra að það þurfi að skoða þetta allt í tengslum við kjarasamninga. Ég vona að það sé ekki rétt, að það sé það sem stjórnarmeirihlutinn vill, að fólk sem er á lægstu laununum, fólk sem er á lágmarkslaunum á Íslandi, þurfi að sitja við kjarasamningaborðið og semja sig upp í óskertar barnabætur, væntanlega fyrir þau býtti að fá lægri laun á móti fyrir alla, hvort sem þeir eru með börn á framfæri eða ekki.

Þetta er eitthvað óskaplega undarlegt og eitthvað sem ég hefði aldrei látið mér detta í hug að félagar mínir til langs tíma í Vinstri grænum myndu styðja. En svo er, því miður, svo virðist vera.

Síðan segja aðrir hv. stjórnarliðar að ekki hafi gefist tími til að hækka barnabæturnar meira eða viðmiðin meira en úr 225 þús. kr. á mánuði upp í 242 þús. kr. Eins og það hefði tekið lengri tíma að hækka viðmiðið upp í 300 þús. kr. Hvaða bull er þetta, herra forseti? Ég skil það ekki. Hér tóku ýmsir til máls í sérstöku umræðunum um fátækt í fyrradag og ég man eftir einum hv. þingmanni Vinstri grænna sem talaði um að við skyldum öll í auðmýkt mæta því verkefni. En við ættum bara ekki að gera það núna heldur seinna. Það mun sem sagt ekki gerast á árinu 2018 að barnabætur skerðist ekki fyrr en við lágmarkslaun heldur skerðast þær langt undir. Þetta er óásættanlegt.

Þess vegna höfum við talað um þetta í mörgum ræðum, skrifað nefndarálit, endurtekið okkur aftur og aftur, vegna þess að þetta er okkur hjartans mál, vegna þess að við erum jafnaðarmenn. Þetta eru árangursrík tæki til þess að vinna gegn ójöfnuði í samfélaginu.

Ég er ekkert að tala um þetta í fyrsta sinn. Á hverju ári frá árinu 2012 höfum við talað okkur hás í Samfylkingunni um þetta mál. Og alveg þangað til núna hafa einmitt við hlið okkar staðið þingmenn Vinstri grænna og verið algjörlega sama sinnis, en ekki núna. Í dag þegar við vorum í óundirbúnum fyrirspurnum að ræða þetta við hæstv. forsætisráðherra velur hæstv. forsætisráðherra það í staðinn fyrir að svara spurningu sem ég beindi til hennar að ráðast á Samfylkinguna fyrir hitt og þetta og allt mögulegt í staðinn fyrir að svara spurningunni. Þá hefði mér fundist betra og mér hefði liðið betur í hjartanu ef hæstv. forsætisráðherra hefði bara sagt: Því miður, við náðum þessu ekki núna, við lofum því að ná þessu á árinu 2018. Við munum ekki bregðast ykkur þá. En það var ekki svo heldur var skætingi beitt sem veldur mér áhyggjum um að í raun eigi ekki að fara í breytingar á þessum jöfnunartækjum.

Annars staðar á Norðurlöndum eru barnabæturnar ekki tengdar við laun, þær eru ekki skertar eftir tekjum heldur er jöfnunin tekin með þrepaskiptu skattkerfi. Þeir sem eru með háar tekjur borga þá meira til samneyslunnar en fá barnabætur eins og aðrir. Það er þangað sem við viljum stefna.

Við höfum oft heyrt hæstv. fjármálaráðherra ræða um hvernig hann vilji hafa hlutina. Hann vill horfa til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fyrirmynd um barnabótakerfið.

Herra forseti. Það er ekki bara þetta sem ég hef áhyggjur af núna í kvöld heldur eru það framhaldsskólarnir og rekstur þeirra á árinu 2018. Það stóð til að framlengja bráðabirgðaákvæði sem sett var fyrst árið 2009 þegar hrunið skall á. Við vorum að reyna að loka fjárlagagatinu og Alþingi frestaði gildistöku tveggja greina og heimilaði áframhaldandi gjaldtöku eins og hafði verið fyrir hrun og áður en lögin tóku gildi, um gjaldtöku af iðnnemum og eins fyrir skólagjöldum í kvöldskóla og í fjarnámi. Þetta gerðum við. Það var tímabundið vegna þess að við vorum í miklum vanda, annars hefði þurft að skera enn þá meira niður af námsframboði framhaldsskólanna en við þurftum nauðsynlega að opna þá fyrir ungu fólki í atvinnuleit þegar staðan var eins og hún var rétt eftir hrun.

Það sem hefur hins vegar gerst síðan er að bráðabirgðaákvæðið hefur verið endurnýjað. Að vísu var það ekki endurnýjað við síðustu fjárlagagerð, þannig að árið 2017 þá áttu lögin að vera í gildi og ekkert bráðabirgðaákvæði í gildi. En núna ætlaði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að setja bráðabirgðaákvæðið aftur á jafnvel þótt hér hafi verið alla vega í orði sagt að starta ætti nýrri stórsókn í menntamálum og sérstaklega ætti að horfa til starfsmenntunar í landinu. Þá fannst þeim við hæfi að hækka efnisgjöld á starfsmenntanemendur og einnig skólagjöldin í kvöldskóla og í fjarnám. En sem betur fer, virðulegi forseti, og það kom mér skemmtilega á óvart, ákvað stjórnarmeirihlutinn að draga þessa ákvörðun til baka. Mér fannst það svo réttlát og góð tillaga. Auðvitað setja menn ekki bráðabirgðaákvæði um að auka gjaldheimtu á nemendur í framhaldsskólunum rétt þegar stórsókn í menntamálunum er að byrja, það væri skrýtið start. Auðvitað eru það ekki nemendur í framhaldsskólum sem eiga að bera uppi 300 millj. kr. rekstur með framlögum. Menn gera ekki slíkt í einu orðinu og tala í hinu um hvað mikilvægt sé að aðgengi að menntun sé algjörlega óháð efnahag eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði í umræðunni um fátækt. En það hvarflaði ekki að mér, virðulegi forseti, að þau hefðu ekki gert ráð fyrir því að þá þyrfti að setja 300 millj. kr. framlag á móti í rekstur framhaldsskólanna og sú tillaga þyrfti að koma núna í atkvæðagreiðslu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Það kom mér sannarlega á óvart þegar hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði hér í ræðustóli að þetta væri bara allt í lagi, við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur, vegna þess að það ætti að nota almennan varasjóð til þess að dekka þetta. Það er brot á lögum um opinber fjármál. Það dettur engum í hug að gera nema þeim sem hefur ekki lesið lögin eða hefur ekki skoðað skilyrðin sem eru undir til þess að nota varasjóðinn. Í fyrsta lagi notar maður ekki varasjóðinn fyrir fram. Varasjóðurinn á að vera fyrir eitthvað sem er algjörlega ófyrirséð, sem er tímabundið og enginn getur ráðið við. Varasjóðinn á ekki að nota svona, það er ekki hægt að ákveða einhver framlög í rekstur eins og rekstur framhaldsskólakerfisins og segja: Við ætlum síðan að borga það með varasjóðnum. Nei, það gerist ekki.

Það sem þarf að gera er að tryggja 300 millj. kr. framlag í rekstur framhaldsskólanna. Og stjórnarmeirihlutinn þarf að sýna okkur það svart á hvítu áður en við yfirgefum þennan sal að það verði gert. Við vorum ekki að fagna því að falla ætti frá því að setja þetta bráðabirgðaákvæði á aftur sem sett var í neyð árið 2009 til þess eins að framhaldsskólarnir þyrftu að skera niður í rekstri sínum um 300 millj. kr. á árinu 2018. Nei. Það kemur ekki til greina, virðulegi forseti. Stjórnarmeirihlutinn þarf að finna lausn á þessu klúðri sínu.

Ákvörðunin hefur greinilega ekki verið ígrunduð. Þó að mér hafi fundist hún ansi góð þá var hún ekki ígrunduð og var ekki tekin alla leið. En það þurfum við að gera í kvöld. Við verðum að standa saman um það. Ég kalla eftir samstöðu um að við pössum upp á framhaldsskólann og að sú ákvörðun sem tekin var í morgun um að framlengja ekki bráðabirgðaákvæðið verði ekki til þess að það verði að skera niður í framhaldsskólanum.

Ég treysti á það, virðulegi forseti, að við séum öll sammála um þetta og gerum það sem gera þarf til þess að tryggja að það verði ekki eitthvað bull í framhaldinu af þessari ákvörðun sem virtist svo góð í morgun.