148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að nefna að þau sögulegu tíðindi urðu í morgun að stjórnmálaflokkarnir á Íslandi héldu sameiginlegan fund um #metoo-byltinguna. Á það var bent á fundinum að það væri líklega einsdæmi að stjórnmálaflokkarnir á Íslandi sameinuðust á þennan hátt, flokkar sem almennt eru í samkeppni um ýmis pólitísk mál en sameinuðust með slíkum hætti að setja þetta mál á dagskrá. Mér fannst mjög ánægjulegt að fá að taka þátt í þeim viðburði, eins og raunar fulltrúar allra flokka gerðu í morgun. Við skulum vona að sá viðburður skili sér í því að stjórnmálaflokkarnir taki þau mál til skoðunar innan raða sinna og við náum fram varanlegum breytingum á þeirri menningu sem við höfum séð birtast í frásögnum svo ótal margra kvenna, ekki bara í stjórnmálunum heldur í öllum geirum samfélagsins. Þar geta stjórnmálaflokkarnir svo sannarlega lagt sitt af mörkum.

Ég vil segja það í upphafi um stjórnmálaástandið og horfur fram undan, eins og mig minnir að sé yfirskrift umræðunnar, að við komum saman í desember undir óvenjulegum kringumstæðum. Hér voru fjárlög afgreidd á mettíma annað árið í röð sem er ekki til eftirbreytni fram í tímann og fyrstu málin á dagskrá þessa þings munu raunar tengjast ríkisfjármálunum, það verður fjármálastefnan sem verður væntanlega á dagskrá í vikunni sem varðar langtímasýn og stefnumótun í þeim málum. Síðan er auðvitað risamál fram undan á vettvangi þingsins sem er fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Ég vil segja að fjárlögin endurspegla að mörgu leyti gott efnahagsástand. Þau eru samþykkt með tæpum 33 milljarða kr. afgangi, eða 1,2% af landsframleiðslu, en fela hins vegar í sér aukningu upp á 19 milljarða kr. frá síðasta fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram, en talsvert meiri aukningu, eða yfir 50 milljarða aukningu, frá síðustu fjárlögum. Ef við horfum til þess sem við vorum að ræða fyrir kosningar þá felst í þeirri útgjaldaaukningu mjög verulegur hluti þess sem flokkarnir vildu hvað mest auka útgjöld í, það felst í þessu frumvarpi. Þetta eru til að mynda 40% af því sem flokkur minn lagði til að yrði útgjaldaaukning í á kjörtímabilinu öllu, þannig að þar skiptir máli að við forgangsröðum þeim fjármunum sem við setjum í mikilvæg verkefni á skýran hátt.

Mestur hluti aukningarinnar rann til heilbrigðismála. Ég held að gríðarlega stórt verkefni sé fram undan, þ.e. að við setjum heilbrigðisstefnu til lengri tíma. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur boðað að hún verði sett á dagskrá þingsins næsta haust. Ég vonast til þess að það verði mikið samráð haft um þá stefnu þar sem við setjum niður forgangsröðun fjármuna til heilbrigðismála, hvað við viljum leggja sérstaka áherslu á, en ég held að mikilvægt sé þegar við horfum til heilbrigðismálanna að horfa sérstaklega til geðheilbrigðismálanna, án þess að gert sé lítið úr öðrum mikilvægum þáttum. Mér fannst merkilegt að lesa í fjölmiðlum að nú hefur verið settur á ráðherra einmanaleika í Bretlandi, og þótti það mörgum skondið og kúnstugt, en félagsleg einangrun er þar orðin raunverulegt vandamál sem birtist til að mynda í auknu álagi á geðheilbrigðiskerfið. Ég held að mjög mikilvægt sé að við nýtum þau tækifæri sem við eigum til þess að vera á undan og sinna forvörnum skýrar og taka mark á þeim viðvörunarljósum sem við sjáum blikka, til að mynda í auknum kvíða ungmenna.

Þrátt fyrir mikla útgjaldaaukningu erum við samt í þeirri stöðu að frumjöfnuður er hér mestur í Evrópu. Staða ríkisfjármála er góð. Sú stefna verður að heildargjöldin fari lækkandi, frumgjöldin aukist, vaxtagjöldin lækki, og það skiptir máli að við eflum innviði okkar á ábyrgan hátt.

Ég tók eftir því í umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnuna sem verður til umræðu á morgun að þar er sérstaklega talað um að hið opinbera þurfi að koma sér upp mælikvörðum til að mæla arðsemi fjárfestinga. Kallað hefur verið mjög eftir þeirri innviðauppbyggingu sem ég held að við höfum flestöll talað um en það skiptir máli að við tökum það til umræðu á vettvangi þingsins hvernig viljum við efla arðsemi þeirra fjármuna sem við setjum til hins opinbera. Það er til að mynda mín trú, og það sjáum við á ýmsum rannsóknum sem hafa verið gerðar annars staðar í Evrópu, að aukin fjárfesting í menntun, rannsóknum og vísindum skili sér í aukinni hagsæld, þó ekki daginn eftir en til lengri tíma skilar aukin fjárfesting í menntun, rannsóknum og vísindum tvímælalaust aukinni hagsæld. Þegar við ræðum arðsemi fjárfestinga finnst mér mikilvægt að við ræðum ekki eingöngu hinar áþreifanlegu fjárfestingar heldur líka hinar óáþreifanlegu.

Áðan átti ég fund með formönnum flokkanna á þingi um það hvort við gætum sammælst um eitthvert ferli til þess að halda áfram að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég mun seinni partinn í dag setja á veraldarvefinn það minnisblað sem ég kynnti þar fyrir formönnum flokkanna þar sem lýst er því ferli sem ég hef lagt til og hef ég óskað eftir því við formennina að þeir taki þátt í þeim leiðangri þó að við gefum auðvitað ekkert um niðurstöður þess máls. Þar er lagt til að við setjum okkur áætlun fyrir þetta kjörtímabil og hið næsta um að ljúka heildarendurskoðun, byrjum á þeim málum sem kannski hvað lengst hafa verið komin. Ég vil sérstaklega nefna þau mál sem voru undir í þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök atriði ásamt tillögum stjórnlagaráðs 2012 en líka fleiri mál sem við setjum á dagskrá. Ég mun setja þetta á heimasíðu forsætisráðuneytisins seinni partinn og vonast til þess að við getum náð saman um það að setjast niður við þetta borð þannig að við náum fram einhverjum áföngum í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili, kynnum þá áfanga með reglubundnum hætti á vettvangi þingsins og tryggjum að aukið verði sem mest samráð við almenning meðan á ferlinu stendur, bæði með því að nýta þær aðferðir sem við þekkjum til að efla beint lýðræði á borð við rökræðukannanir og annað slíkt, en líka með hefðbundnari aðferðum á borð við opna fundi og opið samráð í gegnum netið.

Ég vil síðan nefna það að ég hef líka nýtt tímann núna til þess að kynna mér málefni svokallaðrar framtíðarnefndar, en eins og kunnugt er er slík nefnd lögð til í stjórnarsáttmála. Það byggir á hugmyndum frá Pírötum sem Píratar lögðu fram á fyrsta kjörtímabili sínu, en fleiri flokkar hafa lýst yfir stuðningi við og ámálgað slíkar hugmyndir og hér hafa verið, framtíðarnefndir. Fræg er framtíðarnefnd Steingríms Hermannssonar. Það er öllum bæði skemmtiefni og gagn í því að lesa þá skýrslu og velta fyrir sér hvað varð að veruleika í því sem þar var fjallað um. Sú vinna var góð og hjálpaði til við að setja niður ákveðna langtímahugsun. Það er það sem við horfum til. Ég hef lagt til, og ætla að kynna það fyrir formönnum flokka og við munum ræða það í samráði okkar, að við lítum til Finnlands þar sem slík framtíðarnefnd hefur verið starfandi frá tíunda áratugnum og er fastanefnd inni á finnska þinginu, vinnur með forsætisráðuneytinu og hefur verulegt svigrúm til að setja mál á dagskrá. Það eru mörg brýn mál á dagskrá hvað varðar langtímasjónarmið í íslenskum stjórnmálum og ég hef til að mynda nefnt í því samhengi fjórðu iðnbyltinguna og þær tækniframfarir sem eru fram undan, sem við ræddum töluvert fyrir kosningar en skiptir máli að við setjum í einhvern farveg á vettvangi þingsins.

Að lokum vil ég nefna nokkur mál sem ég tel að eigi eftir að verða fyrirferðarmikil á vettvangi þingsins. Það er í fyrsta lagi frumvarp til laga um persónuvernd sem er innleiðing á nýrri reglugerð um persónuvernd sem hæstv. dómsmálaráðherra mun mæla fyrir. Þetta er gerbreyting á öllu umhverfi persónuverndar sem við munum vera að innleiða úr evrópskum rétti og veitir í raun og veru ekki af miðað við þær gerbreytingar sem hafa orðið á umhverfi okkar á undanförnum árum þegar kemur að málefnum persónuverndar.

Ég vil líka nefna þá endurskoðun sem er fyrirhuguð á gildandi lögum um skipan ferðamála. Ég vil nefna tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um ofbeldi sem byggir á samstarfsyfirlýsingu fjögurra ráðherra í fyrri ríkisstjórn, þ.e. félags-, mennta-, heilbrigðis- og dómsmálaráðherra, sem skiptir máli að við tökum til umræðu á þinginu.

Síðast en ekki síst vil ég nefna mál sem gert er ráð fyrir að komi hér inn á vormánuðum um breytingar á skattkerfinu og gjaldtöku í formi grænna skatta eða skattaívilnana í takt við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum, sem við ræddum í tengslum við afgreiðslu tekjubandorms fjárlaga. Eins og kunnugt er og ég nefndi í upphafi var tíminn sem þingið hafði mjög stuttur til þess að ræða þau mál ítarlega svo að það verður gott að þingið fái tíma til þess að fara yfir einhverja slíka heildarsýn á málefni grænna skatta og skattaívilnana.

Ég vil nota síðustu sekúndur mínar til að ræða það og upplýsa þingið um að stjórnvöld hafa á síðustu vikum átt óformleg samtöl við fulltrúa sveitarfélaganna og heildarsamtaka á vinnumarkaði um langtímasýn í málefnum íslensks vinnumarkaðar og hvernig megi ná aukinni samstöðu um það hvernig við skipuleggjum innlendan vinnumarkað. Þetta er eitt af því sem við höfum töluvert rætt á vettvangi Alþingis á undanförnum árum, hvernig við getum skapað aukna sátt um ýmsa þætti. Þar hafa verið settir niður starfshópar, nú þegar tveir. Ég fæ kannski tækifæri til þess á næstu vikum að eiga sérstaka umræðu við hv. þm. Jón Þór Ólafsson um málefni kjararáðs. Þar hefur verið settur niður starfshópur um þau málefni en í þessari viku verður líka skipaður hópur um launatölfræði, hvernig staðið er að því, því að þau mál hafa verið umdeild. Við horfum til þess hvernig við getum rutt einhverjum af þeim hindrunum úr vegi sem hafa verið því til fyrirstöðu að við höfum getað skapað aukna sátt um fyrirkomulagið á innlendum vinnumarkaði.