148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað mjög stórt mál og erfitt að taka hér í stuttri andsvaralotu. Það er einfaldlega rangt að íslenska ríkið sé í þeirri stöðu að annaðhvort segja nei eða beita forkaupsrétti þegar skilyrði forkaupsréttarins eru ekki til staðar. Þetta er bara rangt. Staðreyndin er sú að það var sett ákveðið gólf í það verð sem hægt var að eiga viðskipti með hlutafé í bankanum á. Ef menn eru yfir því verði kann að vera að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar í dag að það sé fulllágt, en það var um það samið og ákveðinn tímarammi skilgreindur fyrir slík viðskipti.

Þannig að ég hafna því alfarið að hér sitji ríkisstjórnin hjá með hendur í skauti og sé að missa Arion banka úr höndunum þegar staðreyndin er sú að íslenska ríkið er á góðri leið með að fá góða ávöxtun á upphaflega eiginfjárframlagið og allt það sem samið var um í stöðugleikaskilyrðunum virðist vera að ganga eftir. Þannig er t.d. staða skuldabréfsins sem var gefið út á sínum tíma fyrir rúma 80 milljarða komin niður í 35 milljarða vegna þess að það er búið að (Forseti hringir.) greiða þetta mikið inn á bréfið og aðrar eignir hafa sömuleiðis verið að skila sér.