148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:31]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég reikna þá með því að hv. þingmaður styðji þetta háleita markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Það væri nú gaman ef hann gæfi okkur ádrátt, þótt ekki væri nema pínulítinn ádrátt, á þá stefnu sem verið er að móta sem er svona óskaplega framsækin sem ég vona að sé raunverulega rétt því það hljóta að liggja í henni töluverðar tillögur um hvernig beri að fjármagna þetta viðamikla verkefni. Þetta snýst ekki einungis um minnkandi losun kolefnisgasa, þetta snýst líka um miklar framkvæmdir í landinu hvort sem það er borgarlína eða einhver önnur lausn sem Miðflokkurinn kann að hafa. Það er skógrækt, hvað á að gera í henni? Hvað á að gera í framræslu votlendis o.s.frv.? Í raun og veru kom hv. þingmaður mjög lítið inn á þessar tvær spurningar mínar. Látum það gott heita. Hann hefur þá tækifæri til þess að fjalla um kolefnishlutlaust Ísland 2040 (Forseti hringir.) hér á eftir og útskýra hvernig hann sér fyrir sér leiðina.