148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni upprifjunina. Það er sem sagt í hans máli hópur á vegum heilbrigðisráðherra í hans ríkisstjórn á sínum tíma sem hann kallar núna einhvern hóp sem skilaði einhverri niðurstöðu sem var eiginlega ekkert að marka vegna þess að hún var bara kokkuð upp og svo var bara einhver tillaga samþykkt hérna sem þýddi eitthvað allt annað í huga hv. þingmanns en flestra þingmanna í þingsal (Gripið fram í.) og er áhugavert að heyra í þessu samhengi.

Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmanni finnst þetta ekki skemmtileg umræða um að bæta störf Alþingis. Hann telur að þegar ráðherra leiðist að hlusta á tiltekna þingmenn eigi hann bara ekkert að rækja skyldur sínar gagnvart Alþingi. Er þessi afstaða þingmannsins óbreytt? Telur hann að við sem sitjum núna á ráðherrabekknum eigum bara að velja þau tímabil og þær ræður sem okkur hugnast að hlusta á hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) og þá hvort okkur leiðist að hlusta á hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson á hverjum tíma hvort við sitjum hér undir hans ræðum eða ekki? Eða snýst þetta um skyldur framkvæmdarvaldsins frammi fyrir löggjafanum? Þaðan kemur valdið.