148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, kom ágætlega inn á það í lok svars síns hér á undan að það væri sanngjarnt að skattar lækkuðu á heimili landsins, launþega, þegar svigrúm væri til. Það sem mig langaði að koma inn á hér í dag er að það olli mér nokkrum vonbrigðum að heyra á tal hæstv. ráðherra á svokölluðum skattadegi Deloitte fyrir viku síðan sem það endurskoðunarfyrirtæki hélt í samstarfi við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins. Það skildi eftir hjá mér eina einfalda spurningu sem kallar ekki á langt svar: Telur hæstv. fjármálaráðherra að meiri þensluáhrif eða þensluáhætta verði af því að fjármunir verði eftir í bókum fyrirtækja eða í vösum heimila eða einstaklinga heldur en ef sömu fjármunir liggi í ríkissjóði?

Það sem ég er að kalla eftir er auðvitað (Forseti hringir.) sýnin á frekari skattalækkanir til handa fyrirtækjum og einstaklingum með tryggingagjaldið (Forseti hringir.) sérstaklega í huga.