148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur í augum uppi að við getum verið hvor á sinni skoðun um hvort ráðherraval í samstarfsstjórnum eigi að vera þannig að flokkar geti verið með neitunarvald. Þannig er það ekki í praxís. Þess vegna ítreka ég fyrra svar mitt. Við ráðherraval í samstarfsstjórnum er það auðvitað val hvers flokks fyrir sig að raða upp ráðherralista. Yfirleitt er það þannig að þingflokkar viðkomandi flokks samþykkja tillögu formanna um hverjir sitji sem ráðherrar í slíkum samsteypustjórnum.

Varðandi hina fræðilegu spurningu um hvort einhvern tíma kæmi til í einhverri samsteypustjórn að þingmenn Framsóknarflokksins gætu ekki greitt atkvæði með vantrausti á einhvern ráðherra sem hefði gert eitthvað af sér ætla ég bara að láta vera að svara því það liggur í augum uppi að það þyrfti að taka afstöðu til þess ef slíkt kæmi upp. Og það er ekki á borðinu í dag.