148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið svo um langan veg að mikið af þeim tekjum sem teknar eru renna í ríkissjóð og því miður ekki allar til uppbyggingar. Við þekkjum það að allt frá árinu 2010 og kannski allt fram til ársins 2015 fór allt of lítill hluti til uppbyggingar á samgöngukerfinu. Það hefur aðeins lagast síðustu ár en verulegra úrbóta er þörf og mun þurfa talsvert fjármagn til. Á sama tíma höfum við líka verið með ívilnanir er varða rafbíla, tvinnbíla og aðra vistvæna bíla, sem er hið besta mál en um leið gröfum við svolítið undan því tekjufyrirkomulagi sem við höfum haft til að byggja upp vegasamgöngur. Við þurfum aðeins að velta fyrir okkur hvernig við getum gert þetta inn í framtíðina þannig að tryggt sé að við fáum tekjur. Ein leið sem væri fólgin í því væri að taka gjald, eins og hv. þingmaður minntist á, fyrir framkvæmdir þar sem menn hefðu valkost. Við þekkjum Hvalfjarðargöngin, Vaðlaheiðargöngin og kannski önnur slík. En (Forseti hringir.) það er rétt sem kom fram hjá þingmanninum að tollahlið inn í Reykjavík til að taka gjöld fyrst og fremst af þeirri umferð voru ekki skrifuð inn í stjórnarsáttmálann og ég vinn ekki eftir því.