148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Ég hugsa meira um lausnir, ekki um það hvað við getum gert núna í því að skoða hlutina og kortleggja eitt og annað. Ég hugsa um hversu margir deyja á meðan. Ég vil koma þeim í meðferð strax. Ég vil koma því fólki til hjálpar strax. Stórum hluta af þeim morfínskyldu lyfjum sem eru í undirheimunum er ekki ávísað af læknum á Íslandi. Þau koma frá útlöndum. Þeim er smyglað til landsins. Þau eru vinsæl til neyslu og notkunar. Kannski búast fæstir þeirra sem þau nota við því að verða jarðaðir skömmu seinna en það er staðreyndin.

Ég segi bara: Það verða að koma úrbætur strax. Það er ekki eftir neinu að bíða. Það deyja tveir til þrír í hverjum einasta mánuði á Íslandi í dag. Þetta er dauðans alvara.