148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:20]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég minntist á Vog. Nú er það svo að Sjúkrahúsið Vogur er eina sjúkrahúsið sem afeitrar alkóhólista, þ.e. áfengis- og vímuefnasjúklinga. Þangað eru sendir sjúklingar af Landspítalanum og Hlaðgerðarkoti og fleiri stöðum sem þeir vinna fyrir. Það er eina sjúkrahúsið sem sér um afeitrun á áfengis- og vímuefnasjúklingum. En biðlistinn er samt sem áður þessi vegna fjársveltis. Þingmaðurinn talaði um að það þyrfti að gera eitthvað strax. Það sem þarf að gera strax er að það þarf að setja meiri peninga í Sjúkrahúsið Vog svo að það geti tekið á móti fleiri sjúklingum og hjálpað þeim. Vandi útigangsmanna er ekki húsnæðisvandi eingöngu. Hann er aðallega alkóhólismi.

Svo kom þingmaðurinn inn á forvarnir. Forvarnir eru allt of lítið skoðaðar og allt of lítill peningur settur í þær. Ef settur væri meiri peningur í forvarnir myndi það spara fyrir heilbrigðiskerfið. Þetta er búið að skoða, þetta er algjörlega konkret. Ég myndi segja að þetta væri eitthvað sem heilbrigðisráðherra mætti skoða miklu betur. En ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og þakka fyrir mig.