148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Það vakti undrun mína, verð ég að segja eins og er, að í nokkrum orðum fór hún yfir það að Framsóknarmenn væru líklegir til að gera eitt og annað sem hv. þingmanni finnst ekki skynsamlegt. Framsóknarstefnan er nú skynsemisstefna frá grunni, þannig að yfirleitt förum við bara skynsamlegustu leiðina. Nú er Viðreisn klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum, kannski ekki skrýtið að hv. þm., formaður Viðreisnar, noti tækifærið og hjóli svolítið í Sjálfstæðisflokkinn.

Þar sem hv. þingmaður fór að minnast á hluti sem ég hef orðið var við að þingmenn Viðreisnar virðast ekki geta lært hvernig eru, hverjar staðreyndirnar eru, þá langar mig að spyrja hv. þingmann, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Þær hagræðingaraðgerðir sem farið var í á grundvelli búvörusamnings, þegar hv. þingmaður var í Sjálfstæðisflokknum og sat í þessum sal og greiddi atkvæði með, skiluðu 3 milljörðum á ári samkvæmt mati Hagfræðistofnunar í skýrslu sem var gefin út, en hv. þingmenn Viðreisnar virðast aldrei kunna eða vilja vitna til, síðast á Sprengisandi núna um helgina. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson hélt því þá fram að sá samningur hefði ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut og virðast þeir þingmenn ekki skilja þann samning, þær undanþágur frá samkeppnislögum sem Mjólkursamsalan fékk, og vilja ekki viðurkenna að þessi samningur skilaði 3 milljörðum á ári í hagræðingu þar sem 2 milljarðar fóru til neytenda í þessu landi og 1 milljarður til bænda. Það var afurðastöðin sem tók þetta á sig við þessa hagræðingu.

Þegar menn síðan koma, hv. þingmaður sem landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) á sínum tíma lagði til að menn hyrfu frá bara sisvona — hvað ætluðu menn þá að gera? Ætluðu þeir að skila þessari hagræðingu, taka hana aftur til baka? 3 milljörðum á ári skilaði sá (Forseti hringir.) samningur, 2 milljörðum til neytenda og 1 milljarði til bænda.