148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekkert á óvart að Framsóknarflokkurinn komi hingað upp í pontu og tali gegn því að samkeppni ríki á mjólkurmarkaði. Það er það sem ég var að reyna að draga fram. Það kemur ekkert á óvart því að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei talað fyrir samkeppni, hvað þá fyrir hagsmunum neytenda þegar kemur að landbúnaðarmálum. Ég horfi hins vegar á hagsmuni neytenda og bænda sem sameiginlega hagsmuni.

Ég trúi því og treysti, og það er það sem ég er að kalla fram, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og það er náttúrlega eftirtektarvert að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, kannski ekki svo mjög, skuli ekki vera í þingsal því að þeir vilja kannski ekki taka mjög mikið þátt í því að breyta vinnulagi á þingi, en mér kemur á óvart og það er það sem ég er að draga fram að Sjálfstæðisflokkurinn skuli fara gegn því að berjast fyrir samkeppni á mjólkurmarkaði. Ef við trúum á samkeppnina þá trúi ég því að hún leiði til góðs, m.a. fyrir neytendur og fyrir bændur í landinu. Við viljum og eigum ótvírætt að halda áfram að styðja við bændur í landinu. Það er enginn og ég vona að enginn sé ósammála mér um það.

Við eigum að treysta innviðina. Við eigum að fara í það að styðja bændur, m.a. við að auka og styrkja þá varðandi kolefnisjöfnun. Við eigum að fara í svæðisbundna styrki, sem m.a. Bændasamtökin voru ekkert endilega sammála mér um á sínum tíma, við eigum að fara í miklu markvissari svæðisbundna styrki, þora að segja hvar sauðfjárræktinni vegnar betur eða ætti að vera frekar en annars staðar. Við eigum að fara í það að styðja við unga bændur. Við eigum að þora að segja: Við viljum fá jafnvægi á framleiðsluna. Við eigum líka að þora að segja að afurðastöðvarnar geta ekki komið fram við bændur eins og þeim hentar. Það getur vel verið að Framsóknarflokkurinn styðji afurðastöðvarnar í því, ég geri það ekki.