148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

skipun dómara við Landsrétt.

[13:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir að hafa hlustað á útskýringar hæstv. dómsmálaráðherra hvort tveggja hér í þingsal sem og í fjölmiðlum að undanförnu og eftir að hafa farið yfir þau gögn sem bárust Alþingi um vinnufyrirkomulag við skipun dómara við Landsrétt tel ég nauðsynlegt að fá svar við nokkrum spurningum.

Í fyrsta lagi: Nú liggur fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra tók ákvörðun um að fara ekki að tillögu hæfisnefndar, þvert á ráðleggingar fjölda sérfræðinga sem hvort tveggja starfa innan ráðuneytis sem og utan þess. Nú geri ég ekki ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra hafi eingöngu stuðst við brjóstvit sitt við þessa ákvörðun sína og spyr því hvort ráðherra geti upplýst hver, hverjir eða hvernig henni var talin trú um að hún væri réttum megin við lögin við þessa ákvörðun sína.

Í öðru lagi: Nú liggur fyrir að tillögur dómsmálaráðherra berast ekki þinginu fyrr en 29. maí sem er tveimur dögum fyrir áætluð þinglok. Þá spyr ég einnig: Hvers vegna nýtti ráðherra ekki þann tímaramma sem hún hafði sjálf skapað með lagabreytingum í febrúar 2017, um að frestur til skipunar dómara við Landsrétt væri til 1. júlí 2017 en ekki 1. júní, svo að þinginu og öllum gæfist tími til að vinna málið með fullnægjandi hætti?

Síðasta spurningin: Gögn málsins bera með sér að dómsmálaráðherra hafi fengið þau fyrirmæli að ef breyta ætti út frá sjónarmiðum í reglugerð hæfisnefndar og auka vægi dómarareynslu þyrfti að leggja það sama mat á alla umsækjendur út frá breyttum forsendum sem og veita umsækjendum tækifæri á að bæta við upplýsingar sem lágu fyrir og veita þeim rétt til andmæla. Hvers vegna fór dómsmálaráðherra ekki að þeim tilmælum sem hún fékk til sín eins og sjá má í gögnum sem liggja fyrir þinginu?