148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[14:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þá fáum við kannski yfirlit yfir langtímaskuldbindingarnar inn í nefndina eða eitthvað því um líkt, en alla vega með næstu fjármálastefnu, það er nú vonandi langt í það að við þurfum að fara í það ævintýri aftur.

Það er talað um það í fjármálastefnunni að gerð var fráviksspá. Hagstofan gerði fráviksspá sem gerði ráð fyrir minni umsvifum og samdrætti í ferðaþjónustu o.s.frv., sem leiddi til u.þ.b. eins prósentustigs minni hagvaxtar en fjármálastefnan byggir á. Það er með tilliti til grunngildanna, sérstaklega grunngildanna um varfærni. Af hverju er þá ekki byggt á varfærnislegri spá en gert er? Mér finnst þar augljóslega farið gegn grunngildunum, sérstaklega með tilliti til þess að í kjölfarið gerði Seðlabanki Íslands nýja þjóðhagsspá sem rímaði við varfærnislegu spá Hagstofunnar. Það er eitthvert flakk á milli 2017 og 2018 o.s.frv., það er pínu óljóst hvað má lesa úr þessu í fjármálastefnunni, þannig að það væri bót í máli ef ráðherra færi aðeins yfir það ferli og þær nýju tilraunir með fráviksspár sem voru gerðar fyrir fjármálastefnuna.