148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að fá aðeins að ræða um fráviksspár í þessu samhengi vegna þess að það hefur beina tengingu við það sem ég sagði í framsögu minni um vandann við það að fastsetja með tölulegum hætti fimm ár fram í tímann tiltekin afkomumarkmið. Það sem fráviksspárnar sýndu var hvað óvissan getur byggst hratt upp. Ef það verður frávik strax á fyrsta ári sem síðan magnast upp á öðru, þriðja eða fjórða, þá eru menn komnir óravegu frá upphaflegum áætlunum um framvindu þjóðhagsmála. Þar af leiðandi getur orðið verulegum vandkvæðum bundið fyrir viðkomandi ríkisstjórn og Alþingi á þeim tíma að standa við skulda- og afkomumarkmið sem sett voru fimm árum fyrr. Þetta held ég að hafi verið helsta gagnið sem við höfðum af fráviksspánum.

Varðandi það ákvæði á hvaða spá beri að byggja þá eru lögin dálítið búin að vísa veginn í því. Við tökum bara við þjóðhagsspánni frá Hagstofunni og notum hana eins og hún kemur fyrir, hvorki verri né betri.

Hitt óttast ég að reyni á einhvern tímann í framtíðinni, að hér sitji ríkisstjórn með gilda langtímastefnu fyrir fimm ára tímabil í ríkisfjármálum sem hefur ekki orðið fyrir meiri háttar áföllum í efnahagsmálum eins og þeim sem geta opnað fyrir það að koma með nýja fjármálastefnu heldur hafi smáfrávik ár eftir ár eftir ár eftir ár safnað upp áhrifum sem setur þá ríkisstjórn í þrönga stöðu.