148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er aðalatriðið hver niðurstaðan hefur verið. Það hefur verið svigrúm til skattalækkana. Við höfum aukið svigrúm heimilanna. Við viljum að fólk haldi eftir hærra hlutfalli af sjálfsaflafé og það hefur gengið upp. Menn ættu að fagna því. En vilji menn tala fyrir því að það hafi verið rangt að fara í tekjuskattslækkun og niðurfellingu vörugjalda og tolla o.s.frv. er þeim frjálst að gera það. Ég held því bara fram að það hafi verið aðstæður til að ráðast í allar þær aðgerðir og það hafi skilað gríðarlega miklum ávinningi til langs tíma. Heimilin hafa sterkari stöðu, það sést m.a. á skuldastöðu þeirra o.s.frv. Verðbólgan hefur verið lítil, m.a. vegna þess að viðskiptakjör hafa jú verið hagstæð og lítil verðbólga í viðskiptalöndum. Gengið hefur styrkst vegna þess m.a. að samkeppnisgreinarnar á Íslandi, útflutningsgreinarnar, hafa náð sér á strik. Hvernig ná þær sér á strik? Með því m.a. að hafa ekki evru, með því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil aðlöguðum við okkur að þrengri skilyrðum á örskömmum tíma og náðum mun hraðari efnahagsbata en nágrannaríki okkar. Þetta er mjög áberandi þegar við berum okkur saman við önnur lönd.

Varðandi aðhaldið almennt vil ég vekja athygli á því sem segir í áliti fjármálaráðsins að maður þarf að gera greinarmun á frumjöfnuðinum annars vegar og síðan fjármagnsliðunum hins vegar. Þegar við skoðum fjármálastefnuna og reyndar fjárlög yfirstandandi árs með þeim gleraugum er það mjög áberandi hversu gríðarlega sterkur frumjöfnuðurinn er á Íslandi. Hann er gríðarlega sterkur. Hann er líklega sá sterkasti í Evrópu að Grikklandi mögulega undanskildu. Það sýnir viljann til þess að hafa hér hressilegt aðhald þegar nauðsyn krefur. Við höfum á þessu næsta tímabili fjármálastefnunnar gert ráð fyrir viðvarandi afgangi allan tímann.