148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðan vilja. Það eru nokkur atriði sem ég hef áhuga á að eiga orðastað við hann um.

Í fyrsta lagi: Ef menn ætla sér alltaf að skilja allan heiminn verða engar framfarir. Maður þarf bara að vinna litla sigra í hinum flókna veruleika sem við lifum í. Það er leiðin. Hér er ekki um tilviljanakenndar tillögur að ræða heldur beinlínis skref sem ráðlögð eru af nefnd sem vann í samstarfi við sveitarfélög, verkalýðsfélög, stéttarfélög, atvinnurekendur og fleiri. Þannig að ég held að það sé ekki neitt því til fyrirstöðu að taka þetta skref. Síðan geta menn tekið inn fæðingarhjálpina og allt það sem þarf og á endanum verður löggjöf okkar fullkomin. En þá verð ég löngu dauður.

Hv. þingmaður talar líka um að það sé bagalegt að ekki sé brú frá fæðingarorlofinu yfir í leikskóla. Það er einmitt hluti af því bili sem við ætlum að brúa. Ef við tökum myndlíkinguna um brú byrja menn á hafinu öðrum megin frá. Ein leiðin væri auðvitað að klára hana alla leið yfir og fara upp í 16, 18 mánuði eins og Svíar. En hin leiðin er að fara núna upp í 12 mánuði og teygja sig niður og hjálpa sveitarfélögum. Og þá er búið að brúa bilið.

Hv. þingmaður virðist alveg sammála mér um að þetta sé gott skref.

Hann talar um rétt barnsins. Réttur barnsins er líka að umgangast báða foreldra. Það er sannarlega líka (Forseti hringir.) réttur barnsins að í framtíðinni verði jafnrétti kynjanna og að einstæð móðir hafi jafn há laun og aðrir foreldrar.