148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þegar svarið kom var þetta nokkuð augljóst og spurningin kannski frekar heimskuleg. En ég er sammála. Ég held að leikskólinn eigi að vera hluti af skólaskyldualdri og ríkið eigi að koma með í þá vegferð. Mörg sveitarfélög hafa náttúrlega hafið þessa tilraun með gönguna úr leikskóla í grunnskóla. Það er líka svo ótrúlega misjafnt hvenær það hentar barni að fara úr leikskólaumhverfi og yfir í grunnskóla. Það getur hlaupið á mörgum mánuðum og jafnvel á hátt á annað ár. Ég held að það væri skynsamlegt.

Með styttinguna á grunnskólanum, að hætta aðeins fyrr, held ég að það sé skynsamlegt. Á síðustu fimmtán árum hefur grunnskólaganga íslenskra barna lengst um eitt og hálft ár ef tekið er tillit til þeirra skóladaga sem þeir sækja.

En ég er ánægður með að hv. þingmaður taki vel í frumvarpið og svo vona ég að það lagist bara í meðförum þingsins þegar hv. þm. Brynjar Níelsson verður búinn að fara höndum um það.