148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Áhyggjurnar sem hv. þingmaður veltir upp hafa komið fram víða. En rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að það hefur öfug áhrif. Það þótti einmitt svo merkilegt við niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið og eru í gangi núna. Borgaralaun hvetja til nýsköpunar. Ef við hugsum það rökrétt, ef við hugsum um öryggisnetið, að vera með skilyrðislausa grunnframfærslu, á ensku er það kallað, afsakið slettuna, „venture capital for the people“. Þarna hafa einstaklingar allt í einu tækifæri til að þróa nýjar hugmyndir án þess að hafa áhyggjur af því að ná ekki endum saman. Það er ofboðslega mikið af fólki sem vinnur einhverja vinnu sem það er ekki sérlega hrifið af en það verður að vinna hana því að það þarf að borga reikningana. Fólk hefur þar af leiðandi ofboðslega litla orku eftir langan vinnudag til þess að sinna þeim verkefnum sem því finnast raunverulega spennandi. Mannauðurinn sem við missum þarna — við erum að fara á mis við svo ofboðslega margt. Ég held og rannsóknir sýna að fólk er miklu tilbúnara til að prófa nýja hluti og fara í nýsköpun, stofna sín eigin fyrirtæki og fara í rekstur með þetta öryggisnet, þegar það veit að ef hlutirnir ganga illa muni það samt hafa í sig og á.