148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er auðvitað alveg rétt að þessar stéttir eiga það sammerkt, sér í lagi heilbrigðisstéttirnar, að það er mikið vinnuálag og gjarnan byggt á vaktaumhverfi sem getur verið mjög slítandi. Það er eitt af því sem horfa þarf til í þessu samhengi. Ég held að menn verði að skoða hvernig við þróum slíkt vaktavinnuumhverfi, en það er kannski meira viðfangsefni viðkomandi vinnuveitanda því að þetta getur auðvitað verið mjög misjafnt eftir vinnustöðum. Það er auðvitað bara staðreynd þegar horft er til vinnustaða eins og Landspítalans að þar eru hlutastörf mjög áberandi og væntanlega úrlausnarefni sem þarf ráða fram úr þar sem hluta af lausninni hvernig næst einfaldlega að manna spítalann með mannsæmandi hætti.

Við ræddum um borgaralaun eða skilyrðislausa grunnframfærslu hér á undan og staðreyndin er sú, sem betur fer, að vinnutími okkar hefur verið að styttast. Það má eiginlega segja að framleiðniaukning í atvinnulífinu í gegnum áratugina hafi skipst á milli launahækkana og vinnutímastyttingar og ég ætla að sú þróun verði áfram. Það er töluvert þrýst á um styttingu vinnutíma og það kann vel að vera að það verði hluti af lausninni ef það verður fækkun starfa í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Ég held að þegar kemur að þessum mikilvægu hópum sé fyrst og fremst verið að horfa til þess að grunnlaun og tekjumöguleikar hjá viðkomandi stéttum séu í takti við bæði menntunarkröfur og þá miklu ábyrgð og álag sem fylgir þessum störfum. Hvað menntakerfið varðar sérstaklega þá tek ég undir með hv. þingmanni, mikilvægi þess mun fara sífellt vaxandi. Með hraðari þróun í þjóðfélaginu reynir alltaf meira og meira á menntakerfið hjá okkur.