148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla kannski að halda aðeins áfram með fyrirkomulagið á hjúkrunarheimilunum sem á vafalaust við víðar þar sem í rauninni, í ákveðnu sparnaðarskyni, varð niðurstaðan sú að starfshlutfall fólks og fyrst og fremst kvenna var lækkað, þeirra sem voru í lægst launuðu störfunum. Vinnufyrirkomulaginu var breytt þannig að það kostaði í raun fleiri ferðir á vinnustaðinn til að ná sambærilegu starfshlutfalli. Ég held að þetta sé eitt af fjölmörgu sem þarf að skoða. Auðvitað eru grunnlaunin aðalatriðið en það er fjölmargt annað sem þarf jafnframt að skoða í vinnuumhverfi þessara stétta og vil bara benda sérstaklega á þetta fyrir umfjöllun nefndarinnar.