148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:11]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal bara játa það að ég þekki minna til þessa vaktafyrirkomulags og vinnuumhverfis þegar kemur að hjúkrunarheimilunum. Hér erum við með einhverjum hætti að reyna að greina á milli þessa almenna kjarasamningsumhverfis og þar með vinnutímafyrirkomulags, vaktafyrirkomulags og öðru þess háttar og umræðunnar um það hvernig við lyftum þessum stéttum sérstaklega í kjörum. Það held ég að sé mjög mikilvægt því að hitt á sér samsvörun með fjölmörgum öðrum stéttum, þar sem þessi áskorun, þetta launastig sérstaklega, er kannski ekki fyrir hendi. Sáttin um það að lyfta kvennastéttunum upp með þessum hætti þarf einmitt að nást sem sjálfstæð sátt til hliðar við aðra kjarasamninga á vinnumarkaði. Það sé sátt um það að hér verði einhvers konar samningur til hliðar sem kveði á um sérstakar launahækkanir til þessara hópa meðan verið er að lyfta þeim upp á launastig sem sambærilegar stéttir með sambærilega ábyrgð njóta.