148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ekki litlar spurningar hjá hv. þingmanni.

Í fyrsta lagi, hvers megi vænta í viðbrögðum, ég bar þessa hugmynd, aðferðafræðina, hvað á ég að segja, undir nokkra gamla viðmælendur á vinnumarkaði, verkalýðsmegin kannski fyrst og fremst, um það hvort þeir teldu að þetta gæti gengið upp og fékk jákvæð svör við því, en auðvitað kemur það ekki í ljós fyrr en á reynir. Ég held að almennt séð sé vilji hjá verkalýðshreyfingunni og forystu verkalýðshreyfingarinnar til að taka á þessu og ég held að það sé líka ríkur skilningur á því að þetta verði vart gert öðruvísi en einmitt að verkalýðshreyfingin skuldbindi sig til þess að samþykkja þær sérstöku leiðréttingar eða breytingar sem þarna yrðu gerðar. Annars endum við bara í enn einu höfrungahlaupinu, getum við sagt, einni lotu af því, og allir á sama stað á eftir, þannig að það er alveg gríðarlegt vandamál.

Ég held að við höfum séð það á umræðu undanfarinna ára, jafnvel lengra aftur, að vinnumarkaðslíkanið okkar er auðvitað meingallað. Meginvandinn er kannski sá, sérstaklega þegar horft er til samanburðar milli opinbers og almenns vinnumarkaðar, og ef ég man þetta rétt er hin eiginlega launamyndun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði kannski 60% af heildarlaunaþróun. Svo bætist eitthvað ofan á og það þekkjum við líka að karlar biðja oftar um launahækkun en konur, þeir fá líka oftar já við beiðni um launahækkun en konur. Ég held að þarna sé innbyggður, ég myndi segja ómeðvitaður halli, vonandi, en halli engu að síður, og að þetta endurspegli ekki verðleika eða hversu mikið fólk eigi launahækkanirnar skilið. En þetta er hluti af því að stéttir sem þessar, sem mikil eftirspurn er eftir á hinum opinbera vinnumarkaði, virðast einfaldlega dragast aftur úr. Við sjáum að fjöldi vel menntaðs fólks á þessu sviði hvort sem er í heilbrigðismálum, menntamálum, starfar annars staðar á talsvert betri kjörum en því býðst í þeim störfum sem það menntaði sig til.