148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góða umræðu hér, sem hefur verið allrar athygli verð. Við ræðum hér býsna merkilegt mál, sem, ef vel tekst til, getur orðið mikilvægt skref og innlegg í jafnréttisumræðu í enn víðari skilningi. Þetta er mál sem getur orðið hluti af mikilvægri umræðu um endurmat, ég held ég leyfi mér að orða það þannig, á störfum og verðmæti starfa. Við stöndum frammi fyrir víðtækum þjóðfélagsbreytingum og breytingum í atvinnuháttum. Það er talað um fjórðu iðnbyltinguna. Við erum að eldast. Við þurfum að leggja meiri áherslu á menntun, samfélagsgerðin okkar er að breytast. Þegar breytingar eru að verða þá þarf oft að hjálpa til með stefnumótun og með aðgerðum, til að breyta viðhorfum og breyta kerfum. Stundum er talað um það upp á enska tungu sem kallað er „paradigm shift“; það hefur verið þýtt sem ímyndarhliðrun eða viðmiðaskipti, svo að maður reyni að tala góða íslensku. Ég held að við séum kannski að nálgast það að slík umbreyting sé í aðsigi. Ég held þetta sé allt að breytast, að farið verði að horfa alvarlega á vinnumarkaðinn og kynbundinn launamun og skoða hvernig við metum verðmæti starfa og einstakra starfsstétta.

Það er líka mjög mikilvægt að hugsa um það að ef okkur lánast að takast á við þessar breytingar og jafna kjör sköpum við um leið meira jafnvægi í viðfangsefnum og starfsvali kynjanna. Við eigum að vinna gegn því að vinnumarkaðurinn sé kynskiptur. Það eru auðvitað mjög margar ástæður fyrir því, en ýmsar breytingar eru að verða í viðhorfum og umræðu um jafna stöðu kynjanna á hvaða vettvangi sem er — #metoo-byltingin er allt annars eðlis en er þó af sömu rót. Það er að verða viðhorfsbreyting í samfélaginu, ég trúi því og vona innilega að svo sé. Það sýnir okkur að breytingar geta orðið og eru nauðsynlegar. Ég tel líka mjög nauðsynlegt að við sem löggjafi beitum áhrifum okkar til þess að skapa jarðveg fyrir þær mikilvægu og nauðsynlegu breytingar og hraða þeim. Við vitum öll að oft er erfitt að breyta viðhorfum og kerfum. En ég held að við þurfum að takast á við það. Einmitt þess vegna tel ég mjög mikilvægt að farin sé leið einhvers konar þjóðarsáttar og að sem allraflestir komi að því borði að sammælast um að ætla að breyta hlutunum.

Hér fór fram ágæt umræða um það að aðilar vinnumarkaðarins hafa átt erfitt með að gera tilfærslur í sínum módelum, þ.e. að breyta launahlutföllum á milli einstakra stétta o.s.frv. Auðvitað skilur maður það í sjálfu sér að hver og einn passar upp á sitt og hver og einn vill fá það sama og aðrir. Þess vegna er svo nauðsynlegt að reyna að ná samstöðu um þetta. Ég er mjög spenntur fyrir frekari umræðu um þetta mál. Ég er viss um að allsherjar- og menntamálanefnd mun taka góða umræðu um það. Það eru ýmsir vinklar á þessu. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir minntist á að fleiri stéttir gætu verið hér undir. Ég er alveg sammála því að við þurfum að horfa á þetta í víðu samhengi. Það þarf að byrja einhvers staðar. Við leysum þetta ekki allt saman í einni umferð. En ef við byrjum ekki þá komumst við ekki á leiðarenda. Ég held að þetta sé gott lag undir eitthvað sem mun skipta máli til framtíðar.