148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

52. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þetta er mál 52 á þskj. 54.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Ráðherra leggi stefnuna fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en 1. október 2018.

Málið er nú lagt hér fram í þriðja sinn. Það var áður lagt fram á 146. og 147. löggjafarþingi. Það hefur ekki náð fram að ganga, en þar sem þörfin fyrir stefnumörkun ríkisins í meðferð bújarða er enn til staðar er það endurflutt hér óbreytt að efni til.

Umsagnir sem bárust í fyrri tilraunum framlagningar þessa máls voru ýmist á þann veg að umsagnaraðilar tóku undir markmið tillögunnar og mæltu með framgangi hennar eða gerðu ekki athugasemdir við efni hennar.

Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Síðasta áratug hafa orðið miklar breytingar á landnotkun í dreifbýli en sú breyting sem hefur hvað víðtækust áhrif er mannfjöldi sem ræðst að verulegu leyti af atvinnumöguleikum fólks.

Markmið tillögu þessarar er einkum það að ríkið marki sér stefnu sem tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila.

Árið 2013 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu. Í lokaskýrslu starfshópsins frá ágúst 2015 kemur fram að mikilvægt sé að móta eigendastefnu fyrir landareignir í eigu ríkisins, hvernig beri að nýta og ráðstafa þeim, þar með talið hvort og hvaða jarðir skuli vegna sérstöðu sinnar vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja, og þá eftir atvikum, með hvaða kvöðum.

Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar, en flestar bújarðir og jarðahlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004, fer fjármála- og efnahagsráðuneytið með forræði ríkisjarða og kveða lögin á um kaup, sölu og aðra ráðstöfun ríkisjarða. Lögin kveða hins vegar ekki á um að ríkið setji sérstaka stefnu fyrir sínar jarðir. Úr því er mikilvægt að bæta því í gegnum árin hefur víða komið upp sú staða að fólk sem hefur viljað setjast að á jörðum, hefja búskap og setja sig niður, hefur ekki fengið það því vinnu- og verkferla virðist vanta. Auk þess sem ráðstöfun jarða getur verið snúin ef nýtingaráætlanir eru ekki til staðar og verkfæri til úttektar bág.

Flutningsmenn telja eðlilegt að við mótun stefnunnar verði haft samráð við Bændasamtök Íslands, Landgræðslu ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skógrækt ríkisins. En auðvitað má líka leggja til að haft verði samráð við fleiri, t.d. ríkiseignir og Landssamtök landeigenda.

Hæstv. forseti. Umræða um jarðakaup útlendinga hefur verið töluverð að undanförnu en er ekki ný af nálinni. Hinn 17. apríl 2013 setti þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, nýja reglugerð um kaup útlendinga með lögheimili á EES-svæðinu á fasteignum hér á landi. Samkvæmt henni máttu EES-borgarar ekki kaupa land á Íslandi nema þeir hefðu lögmæta dvöl eða starfsemi hérlendis. Reglugerðin var numin úr gildi nokkrum mánuðum síðar af þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem taldi reglugerðina ekki samræmast skuldbindingum landsins vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í janúar 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp með það að markmiði að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum á Íslandi. Starfshópnum er ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í því sambandi má nefna að eignarhald á landbúnaðarlandi er takmarkað í dönskum jarðalögum og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.

Hæstv. forseti. Á 145. löggjafarþingi í máli 541 kom fram í skriflegu svari þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra að ríkissjóður ætti 450 jarðir og að stór hluti þeirra væri nýttur til landbúnaðar. Ríkiseignir annast daglega umsýslu stærri hluta jarðareigna ríkisins eða um 315 jarða. Þá eru í gildi um 120 ábúðarsamningar hjá Ríkiseignum vegna bújarða. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Fjölmargir leigusamningar hafa verið gerðir um ríkisjarðir þar sem leigutaki býr á jörðinni. Einnig er algengt að jarðir séu leigðar til slægna og beitar til aðila sem búa á aðliggjandi jörðum. Húsakostur er forsenda þess að geta hafið ábúð á jörð og því henta eyðijarðir almennt ekki til ábúðar.

Hæstv. forseti. Sem betur fer er enn þá til ungt fólk sem vill leggja matvælaframleiðslu fyrir sig og stunda landbúnað. Eiga og ala upp börn í sveitasamfélagi, byggja upp samfélagið og vera þar bústólpar. En því miður hefur þróunin verið sú að sífellt fleiri jarðir hafa farið úr ábúð. Það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og liður í að tryggja jafnrétti til búsetu sem er okkur Framsóknarmönnum hugleikið.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna að þessu sinni með því að tiltaka einstaka dæmi sem upp hafa komið, en vitað er að mikið er í húfi fyrir sveitarfélög sem byggja afkomu sína að stórum hluta á landbúnaði og ferðaþjónustu. Fari jarðir úr ábúð og ekki er samfella í búskap kostar það mikið. Túnin fara úr rækt og menn þurfa að koma sér upp nýjum bústofni. Það gilda nefnilega ekki sömu aðferðir við sölu á húseignum og jörðum sem í ábúð eru og standa undir búskap.

Hæstv. forseti. Eitthvað lítið virðist hafa verið gert til að selja og setja jarðir í ábúð og auglýsa þær. Líklega vantar reglur um það hvar og hvernig á að auglýsa. Góðar jarðir hafa einfaldlega verið látnar drabbast niður vegna aðgerðarleysis af hálfu ríkisins. Þessu þarf að breyta. Með þingsályktunartillögu þessari er stigið markvisst skref í þá veru að færa þessi mál til betri vegar.

Eins og fram kemur í greinargerðinni hafa margar landareignir í eigu ríkisins mikla sérstöðu hvað varðar náttúru, sögu og menningu. Stefnumótunin þarf að taka mið af því hvernig beri að nýta þessar jarðir, ráðstafa þeim. Hún þarf að vera leiðarvísir þannig að ljóst sé hvaða jarðir skulu sérstöðu sinnar vegna vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja og með hvaða kvöðum.

Hæstv. forseti. Sú staðreynd að ríkissjóður á um 450 jarðir sem flestar eru nýttar til landbúnaðar felur í sér mikil tækifæri, tækifæri til að styrkja byggðir og styðja við íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu og verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu. Nú þegar sérstakra aðgerða er þörf í loftslagsmálum finnst mér liggja beinast við að ríkið gangi fram og uppfylli samninga við bændur sem nú þegar eru til staðar varðandi skógrækt. Þannig reiknast mér til að ná megi loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar, styrkja byggð, styðja við atvinnuuppbyggingu, styrkja ferðaþjónustu, fegra og bæta landið og margt fleira.

Ég vona að fleiri en ég komist að þessari niðurstöðu og að málið fái framgang.

Að þessu máli stendur, auk mín sem hér stendur, þingflokkur Framsóknar. Það eru eftirtaldir hv. þingmenn: Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Willum Þór Þórsson.

Að lokum legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvinnuveganefndar.