148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

52. mál
[19:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Það er sannarlega gott að sjá þessa þingsályktunartillögu lagða fram sennilega í þriðja sinn og þakkarvert framtak.

Í greinargerðinni segir, sem er kjarni málsins og ég ætla að fá að lesa hér, með leyfi forseta:

„Markmið tillögu þessarar er einkum það að ríkið marki sér stefnu sem tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila.“

Þetta eru orð að sönnu, kjarni málsins eins og ég segi. Það er löngu kominn tími til að afgreiða þessa þingsályktunartillögu.

Hvað jarðakaup útlendinga snertir þá eru þau þegar hafin eins og við vitum. Það sem kannski einkennir örfá tilvik er ákveðin söfnun jarða. Við sjáum þetta við Ísafjarðardjúp. Við sjáum þetta á Mið-Suðurlandi. Við sjáum þetta á Norðausturlandi. Viðbrögðin við kaupum annarra útlendinga eru á þann veg að skipaður var starfshópur af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með það að markmiði að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum á Íslandi. Það er enn og aftur löngu tímabært að bregðast við þessu með einhverjum hætti sem gerir það að verkum að stór hluti jarða á Íslandi, og ég vil segja sem allra flestar, sé áfram í íslenskri eigu.

Herra forseti. Þess ber að gæta að það er nokkur fjöldi ónýttra ríkisjarða um þessar mundir. Þær gætu eflt dreifðar byggðir væru þær í búsetu. Þarna fléttast inn í hlutverk sem við getum lesið um í þessari greinargerð, þ.e. að hægt væri að nýta þær í átaki okkar gegn loftslagsbreytingum. Við erum að ræða um skógrækt, endurheimt votlendis og við erum að ræða um uppgræðslu auðna eða lands sem er skemmt að einhverju leyti. Þegar kemur að ferðaþjónustu þá eru þegar nokkrar ríkisjarðir í ábúð í þeirri grein, þeim mætti auðvitað fjölga og þá einkanlega í byggðum sem síst njóta afraksturs ferðaþjónustu og henta til blandaðs búskapar, t.d. samblands af sauðfjárrækt, endurheimt landgæða og ferðaþjónustu.

Þarna fléttast líka inn vandi sem felst í því að ríkið leysir stundum til sín eignir fyrri ábúanda komi nýir að jörðinni og upphæðirnar geta verið býsna háar. Það hefur, að því er ég hef heyrt, staðið í ríkinu, ef við orðum það þannig, að opna fyrir nýjum eigendum einmitt vegna þess atriðis.

Núverandi starfsnefnd á vegum hæstv. ráðherra landbúnaðar, eða tilvonandi vinnuhópur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þarf að finna leiðir til þess að auðvelda á öllum sviðum aðkomu nýrra leigutaka eða eigenda.

Svo má minna á það af sjálfu leiðir að ríkið getur bókstaflega selt einhverja af jörðum sínum eða keypt jarðir sem hafa hlutverki að gegna í almannaþágu, t.d. vegna friðunar, en það er auðvitað önnur saga.

Ég fagna frumvarpi hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur og fleiri Framsóknarmanna og vænti snöfurlegrar afgreiðslu hæstv. fagnefndar að málinu því að nú er gott lag til framfara í þessum efnum.