148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staðsetning þjóðarsjúkrahúss.

[11:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu því að það er mikilvægt að við ræðum þessi mál í þingsal, ekki síst til að reyna að víkka daglega umræðu aðeins út því að hún hefur verið ýmsum takmörkunum háð, bæði hjá stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Mér finnst hæstv. ráðherra og þingmönnum takast býsna vel upp í því efni.

Mig langar sérstaklega að horfa til háskólahlutverks Landspítalans. Það snýst um kennslu en er líka samofið allri annarri starfsemi og er grundvöllur framþróunar starfseminnar á fjölmargan hátt, enda hét stofnunin til skamms tíma Landspítali – háskólasjúkrahús.

Rannsóknir í heilbrigðisþjónustu eru forsenda framfara og hagræðingar í heilbrigðisþjónustunni, samfélaginu og sjúklingum til góða. Háskólaverkefni spítalans eru því einn af lykilþáttunum við staðarval og brýnt er að greið leið sé á milli spítalans og háskólanna. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, fólk er á hlaupum á milli Háskóla Íslands og Landspítalans alla daga.

Mig langar einmitt að taka upp nokkrar tölur um samstarf Háskóla Íslands og Landspítalans frá árinu 2016 sem eru sóttar á vef háskólans. Háskólinn og Landspítalinn annast saman menntun og þjálfun starfsfólks í heilbrigðisþjónustu. Nemendur heilbrigðisvísindasviðs eru ríflega 2.000, akademískir starfsmenn um 300, þar af 100 sameiginlegir starfsmenn, og að auki 900 stundakennarar frá Landspítalanum. Að hægja á framkvæmdum við Hringbraut núna væri því álíka skammsýni og að loka Reykjavíkurflugvelli án þess að annar kostur sé fyrir hendi. Í þeirri ríkisstjórn sem ég studdi árið 2014 (Forseti hringir.) var samþykkt að ljúka undirbúningi að endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut, orðrétt. (Forseti hringir.) Sú ríkisstjórn varði nálægt 2 þús. millj. til uppbyggingar Landspítala við Hringbraut.