148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:02]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir að hefja máls á þessu fjölmiðlamáli, og þeim sem hafa haldið hér ræður. Þá kemur upp í hugann, eins og margir hafa komið inn á, Ríkisútvarpið.

Staða einkarekinna fjölmiðla er að mínu viti ekki góð hér á landi, aðallega í ljósi þess að samkeppnisstaða þeirra gagnvart Ríkisútvarpinu er skökk, einfaldlega vegna þess að RÚV er á auglýsingamarkaði og þá óneitanlega samkeppnisaðili við einkarekna fjölmiðla. Einnig er skattalegt umhverfi einkarekinna fjölmiðla erfitt.

Afnotagjöld Ríkisútvarpsins hækkuðu í síðustu fjárlögum. Þegar spurt er hvers vegna er svarið að sjálfsögðu: Það kostar að reka útvarp. Einnig er talið nauðsynlegt að þjóðin hafi ríkisrekinn fjölmiðil sem öryggistæki fyrir almannavarnir og önnur þau öryggissjónarmið er lúta að því að koma skilaboðum um allt land ef eitthvað steðjar að og allir landsmenn þurfa að fá skilaboð um það strax.

En nú er það staðreynd að útsendingar RÚV nást ekki um allt land. Þá er illt í efni þegar talað er um öryggistæki. Í dag er tæknin orðin sú að aðrar leiðir en gamla góða Ríkisútvarpið eru jafn góðar ef ekki betri þegar koma þarf skilaboðum til landans.

Ég hef alltaf verið fylgjandi Ríkisútvarpinu. Saga þess er samofin þjóðarsálinni, bæði sem menningarlegur fjölmiðill í djúpum skilningi þess orðs og sem öryggistæki. En tímarnir hafa breyst og við því verður að bregðast.