148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir að vekja máls á þessu þýðingarmikla máli.

Það er auðvitað allt rétt sem fram kom í máli hans. Á milli fjölmiðla er leikurinn ójafn, það er vægt til orða tekið, hann fer raunar í bága við öll samkeppnislögmál og er í raun fullkomlega óþolandi.

Hér er sannarlega tímabært að vekja máls á þessu. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hennar til umræðunnar. Við fáum í dag mikilvæga skýrslu sem ég vænti að verði rædd á Alþingi og verði grundvöllur að ítarlegri stefnumörkun, og ég leyfi mér að taka undir með ráðherra, að hér verði mótuð fjölmiðlastefna, og þakka ég henni fyrir það.

Það er ekki bara að þetta mál snúist um samkeppnisskilyrði fyrirtækja í fjölmiðlarekstri heldur eru afar þýðingarmiklir lýðræðishagsmunir þjóðarinnar undir, afar þýðingarmiklir menningarlegir hagsmunir þjóðarinnar undir. Hér er sömuleiðis undir vernd og viðgangur íslenskrar tungu. Málið er eins stórt og það getur í raun og sanni orðið. Ég á mér þá von og ósk að á Alþingi verði samhugur um víðtæka stefnu í þessum efnum sem getur fleytt okkur fram á við á öllum þeim sviðum sem málið snýr að.