148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni umræðuna. Hún er sannarlega þörf. Málshefjandi kemur inn á mikilvæga þætti.

Menningar- og lýðræðishlutverk fjölmiðla er óumdeilt, hvort heldur sem er einkarekinna eða ríkisrekinna. Hv. þingmaður telur það kraftaverk að einkareknir fjölmiðlar hafi við núverandi samkeppnisaðstæður þrek til að starfa. Ég ætla að vísa í grein sem birtist á vef Hagstofunnar sem styður þá þróun sem átt hefur sér stað, ef við skoðum samkeppnisumhverfið, sem hefur vissulega orðið flóknara með hraðri tækniþróun, eins og fram hefur komið í umræðunni. Í greininni kemur fram að við skerum okkur þó nokkuð úr í samanburði við Norðurlöndin og Vesturlönd. Hér er lægri upphæðum varið til kaupa á auglýsingum en á Norðurlöndunum, hvort sem reiknað er á íbúa eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Það segir sig sjálft að einkareknir fjölmiðlar treysta á þessar tekjur. Í þessu flókna umhverfi herðir að. Þróunin í samdrætti auglýsingatekna er þó til samræmis við þróunina annars staðar þar sem tekjur hafa líka dregist saman, þ.e. á Norðurlöndunum. Þá hefur hlutur dreifst á fleiri aðila með tilkomu og aukinni útbreiðslu vefmiðla.

Þegar við búum ekki við fullkomið samkeppnisumhverfi og menningar- og lýðræðishlutverkið er óumdeilt, ber okkur að skoða það. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra, m.a. á grundvelli skýrslu sem kom út (Forseti hringir.) í morgun, til aðgerða og mótunar stefnu á þessu sviði.