148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:21]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Frú forseti. Ég velti oft fyrir mér hvaða erindi ríkið á inn í þennan bransa, fjölmiðlabransann, og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu, eins og flestir aðrir hv. þingmenn hafa nefnt, að það er menningarhliðin. Við erum mjög fámennt þjóðfélag og það verður aldrei markaður fyrir alla þá litlu hópa og áhugahópa um alls kyns málefni sem við verðum að sinna ef við ætlum að halda hér uppi menningarlegu þjóðfélagi. Þess vegna held ég að RÚV hafi áfram ótvírætt hlutverk og það sé engin spurning um það. Þetta hlutverk kostar örugglega pening, það mun örugglega kosta pening, hvernig sem honum er náð og ég get alveg léð máls á því, eins og margir fleiri, að RÚV dragi sig út úr auglýsingamarkaði og það sé hreinlega frekar á ríkisins hendi.

Mér finnst að endurskoða þurfi hugmyndirnar um RÚV eða ríkisútvarp og -sjónvarp. Þar inni eru í dag orðin uppsöfnuð gríðarleg verðmæti þjóðarinnar í menningarmálum. Þetta ætti í raun og veru að gera miklu aðgengilegra. Við höfum netið og fólk er, eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum, farið að velja sér efni sjálft. Við þekkjum öll ungmenni í dag sem bókstaflega opna aldrei fyrir dagskrá sem er fyrir fram ákveðin. Þetta er bara að gerast, þannig að RÚV ætti að vera menningarhlaða þjóðarinnar. Einnig ætti að halda áfram að búa til menningarefni og koma því á framfæri, annaðhvort með eigin rekstri eða með því að kaupa sig inn í annars staðar.

Líka þarf að huga að lýðræðislegri umræðu, það er svona matsatriði. Að þessu sögðu finnst mér stóra málið að tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að (Forseti hringir.) fjarskiptaneti, interneti og slíku. Þannig getum við tryggt þetta.