148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Mikið var ég glaður að heyra ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar. Hann kemst akkúrat að kjarna málsins. Um það snýst þetta.

Það var annar bragur á ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem ég skildi hvorki upp né niður í, annaðhvort hlustaði hún ekki á það sem ég var að reyna að segja eða þá að ég hef talað þannig að hún skildi ekki hvað ég var að reyna að segja, en það er mjög einfalt. Við eigum að búa til umhverfi þar sem frjálsir fjölmiðlar, sjálfstæðir fjölmiðlar, ná að blómstra, ná að festa rætur þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Það er staðreynd að miðað við það fyrirkomulag sem við höfum haft er búið að skekkja stöðuna á þann hátt að ekki verður við unað.

Fíllinn í stofunni heitir Ríkisútvarpið. Ég hef auðvitað ákveðnar skoðanir á því hvort ríkið eigi yfir höfuð að reka fjölmiðla eða ekki, en það er allt annað mál. Ég er ekki að tala um það. Ég er að tala um að fyrst við erum búin að ákveða að reka ríkismiðil skulum við a.m.k. reyna að jafna stöðuna á einhvern hátt. Ég hef lagt fram ákveðnar hugmyndir og það eru alveg örugglega aðrar hugmyndir. Samkeppnissjóður hugnast mér vel, vegna þess að það eru nokkur ár síðan ég lagði það til. En það er vonandi að dropi holi steininn í þeim efnum.

Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kærlega fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég hygg að tilefni sé til þess að við tökum aftur upp þráðinn þegar við erum öll búin að ná að kynna okkur þá skýrslu sem hæstv. ráðherra fékk afhenta í morgun og þá verði ekki sérstakar umræður sem standi yfir í hálftíma. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að efna til mjög langrar, ítarlegrar umræðu í þessum sal (Forseti hringir.) um hlutverk Ríkisútvarpsins, um það hvernig við getum bætt stöðu einkarekinna fjölmiðla (Forseti hringir.) og hvernig við getum styrkt lýðræðið og frjálsa, opna umræðu á Íslandi. Um það snýst þetta allt saman.