148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Nú vill svo til að við vorum saman úti í Hvíta-Rússlandi seinasta sumar á fundi ÖSE. Þetta var nýjung fyrir mér, ný upplifun fyrir mig að fara á svona fund. Ég tók frekar fljótlega eftir því, þegar ég fór að spyrja kollega okkar þarna úti frá öðrum Norðurlöndum, frá nágrannalöndunum okkar, hvernig þeir höguðu sínum öryggismálum þarna úti að margt var öðruvísi en við eigum að venjast. Ég hafði hugsað um það áður en ég fór hvort öruggt væri að fara með tölvur og síma, upp á öryggi tölvupóstssamskipta og annarra miðla. Það var voða lítil þekking til staðar hérna á þinginu hvað þetta varðar og fátt um svör.

Þegar ég talaði við kollega okkar frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð kom í ljós að þar gilda mjög strangar reglur varðandi öryggi. Þingmenn eru með svokallaðan „burner“-síma, síma sem þeir fá og henda þegar þeir koma aftur heim til sín, og þeir eru með tölvur sem eru straujaðar þegar þeir koma aftur til síns heima. Þeim er sagt að í þessum símum og þessum tölvum megi þeir ekki fara inn á tölvupóstinn sinn, eða danska kollega okkar var bannað að fara í tölvupóstinn sinn eða inn á Facebook eða aðra miðla og notaði símann eingöngu fyrir sms og símtöl.

Mér dettur í hug að spyrja hv. þingmann, þar sem hann sat sem utanríkisráðherra fyrir nokkrum árum, hvort þetta sé mál sem hefur áður verið í umræðunni hér á þingi, þ.e. varðandi þá fundi sem íslenskir þingmenn sækja erlendis?