148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:30]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu yfirferð á skýrslu frá þingnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Mig langar að nýta tækifærið og benda á þær alvarlegu athugasemdir sem fulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Harlem Désir gerði í kjölfar lögbanns sýslumanns á umfjöllun Stundarinnar um eignarhaldsfélag sem hélt utan um eftirstandandi eignir Glitnis, sem ætti að vera okkur kunnugt þar sem lögbannið var sett á fjölmiðilinn rétt fyrir alþingiskosningar.

Enn hafa ekki komið fram neinar upplýsingar um hvernig eigi að tryggja réttindi fjölmiðla á Íslandi en ljóst er að málið er grafalvarlegt. Með leyfi forseta, vitna ég í það sem Désir sagði um bannið:

„Markmið það að vernda persónulegar upplýsingar er lögmætt en það þarf að túlka þröngt og í samræmi við tjáningarfrelsi. Að setja svo víðtækt bann á umfjöllun um þetta málefni grefur undan frelsi fjölmiðla og rétti almennings til þess að fá upplýsingar.“

Við verðum að taka þessar athugasemdir alvarlega sérstaklega í ljósi þess að síðustu ár hafa fallið dómar hjá Mannréttindadómstól Evrópu þar sem íslenska ríkið hefur verið talið brjóta gegn tjáningarfrelsi íslenskra fjölmiðla. Ég vil því nýta þetta tækifæri undir þessum dagskrárlið til að benda á hversu alvarleg staða tjáningarfrelsis fjölmiðla er hér á Íslandi. Ef við teljum okkur búa í lýðræðislegu samfélagi þá þurfum við að sjá sóma okkar í því að taka slíkar athugasemdir gríðarlega alvarlega. Fjölmiðlar eru fjórða valdið og eiga að veita stjórnmálamönnum aðhald. Ef við búum ekki til gott umhverfi fyrir fjölmiðla þá uppfyllum við ekki skyldur okkar við lýðræðið.

Auk þess vil ég minna þingheim á þá skýrslu sem kom frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í kjölfar alþingiskosninga 2013 þar sem gerðar voru athugasemdir við framkvæmd kosninganna. Þeim athugasemdum hefur ekki verið nægilega vel fylgt. Má m.a. nefna að í alþingiskosningum í október 2017 voru kjörkassar ekki nægilega vel innsiglaðir.

Ég vona að einnig verði gerð bragarbót í þessum málum. Ég ítreka að ef við teljum okkur búa í lýðræðisríki þá tökum við þessar athugasemdir alvarlega og sjáum til þess að hér sé réttaröryggi tryggt. Það er augljóslega í hag almennings og hlýtur því að verða liður í því að byggja upp traust almennings gagnvart stjórnmálum.