148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

Vestnorræna ráðið 2017.

85. mál
[13:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég flyt nú skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2017. Í upphafi vil ég fara nokkrum almennum orðum um starfsemi Vestnorræna ráðsins. Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (eða Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum, bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum.

Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, og ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra sem staðsettur er á Íslandi. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. 18 fulltrúa alls. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Bryndís Haraldsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Einar Brynjólfsson, þingflokki Pírata, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Eygló Harðardóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Pawel Bartoszek, þingflokki Viðreisnar.

Markmið Vestnorræna ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli Vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt. Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda.

Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Samþykki þingið ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd.

Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir. Hún er nú fram undan. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.

Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvort á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði.

Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.

Málefni norðurslóða bar hæst á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2017. Á ársfundi ráðsins og í alþjóðlegu samstarfi hefur verið fjallað um áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir, m.a. í formi loftslagsbreytinga, súrnunar sjávar og mengunar, en einnig tækifæri í t.d. ferðaþjónustu og auknum flutningum. Alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum hefur stóraukist vegna áhrifa loftslagsbreytinga á ásýnd og aðgengi að svæðinu. Vestnorræna ráðið hefur lagt áherslu á að umræðan snúist um fólkið sem búi á norðurslóðum og hvernig tryggja megi íbúum svæðisins öryggi og hagsæld. Í maí var umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu formlega samþykkt og í kjölfarið fór í hönd vinna á skrifstofu ráðsins við að móta stefnu varðandi áheyrnaraðildina.

Á ráðstefnunni Hringborði norðurslóða í október stóð Vestnorræna ráðið fyrir málstofu um hlutverk áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu þar sem fyrirlesarar með víðtæka reynslu af starfi ráðsins ræddu hvernig best væri að nýta áheyrnaraðild til áhrifa. Strax í umsóknarferlinu var ákveðið að Vestnorræna ráðið tæki þátt í starfi vinnuhóps um sjálfbæra þróun innan Norðurskautsráðsins.

Í drögum að verkefnatillögu Vestnorræna ráðsins fyrir vinnuhópinn er lögð áhersla á forvarnir gegn áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Einnig er áformað að formaður ráðsins taki þátt í fundum æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins ásamt framkvæmdastjóra.

Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í febrúar var rætt um kynbundnar áskoranir með áherslu á málefni karla. Meðal umræðuefna var fæðingarorlof feðra og leiðir til að auka orlofstöku þeirra, heilsa og lífslíkur karla, réttur feðra til barna sinna eftir skilnað, karlanefndir á Íslandi og karlahópar á Grænlandi.

Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn á Alþingi 31. ágúst og 1. september og var það í fyrsta sinn sem ársfundur var haldinn í þingsal aðildarlands. Á ársfundi voru samþykktar þrjár ályktanir sem verða lagðar fram á þjóðþingum landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar á árinu 2018. Sú fyrsta fjallar um samsetningu og útgáfu vestnorrænnar söngbókar með dægurlögum á öllum þremur tungumálum landanna. Önnur ályktunin hvetur stjórnvöld landanna þriggja til að leita leiða til að auka samvinnu um menntun í sjávarútvegi, sérstaklega í fisktækni og gæðaeftirliti. Sú þriðja kallar á stjórnvöld að rannsaka innihald örplasts í sjávarafurðum í Norður-Atlantshafi og magn plastmengunar í hafinu.

Sökum þess hve Alþingi starfaði stutt haustið 2016 náðist ekki að leggja fram tvær ályktanir ársfundarins 2016 til þingsályktunar og bíða þær því yfirstandandi þings og fá væntanlega umfjöllun síðar á þingtímanum. Utanríkisráðherrar Vestur-Norðurlanda ávörpuðu ársfund Vestnorræna ráðsins og í kjölfar hans skrifuðu ráðherrarnir undir samstarfssamning sem byggist á ályktunum Vestnorræna ráðsins. Í samstarfssamningnum kemur fram að ráðherrarnir muni hittast árlega til að ræða sameiginleg áhersluefni og að sérstakur vinnuhópur verði stofnaður til að starfa að aukinni samvinnu og fríverslun milli landanna.

Á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki undirrituðu menningarmálaráðherrar Vestur-Norðurlanda einnig samstarfssamning. Sá samningur kveður á um námskeið fyrir handritshöfunda frá löndunum þremur og byggist einnig á ályktun Vestnorræna ráðsins.

Í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins eiga sæti eins og fram hefur komið formenn landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja. Hún átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Brussel í júní. Bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum og málefni norðurslóða voru helst til umræðu. Þá tók forsætisnefnd þátt í 69. þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í október þar sem hún fundaði með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Til umræðu á fundunum var m.a. áheyrnaraðildin að Norðurskautsráðinu, málefni norðurslóða og sjávarútvegsmál.

Frú forseti. Íslandsdeild hélt sjö fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Á einn fund sinn bauð Íslandsdeild fulltrúum frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um Norðurslóðamál. Á dagskrá fundarins var umræða um norðurslóðamál og málefni Norðurlanda. Ný Íslandsdeild var kosin 14. desember síðastliðinn í kjölfar alþingiskosninga í októberlok 2017 og hélt hún fyrsta fund sinn milli jóla og nýárs. Aðalmenn í Íslandsdeildinni eru Guðjón S. Brjánsson, formaður, þingflokki Samfylkingar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Á ársfundi Vestnorræna ráðsins 2017 var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Ilulissat á Grænlandi í janúar 2018 og að þemaefnið yrði áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Ráðstefnan verður haldin um komandi helgi og munu hana sitja meðlimir Íslandsdeildarinnar.

Virðulegur forseti. Ég hef nú drepið á helstu þætti í starfsemi Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins árið 2017 en vek athygli á ítarlegri, ritaðri skýrslu sem liggur fyrir aðgengileg á vef og á pappír. Ég hef nú lokið yfirferð minni.