148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[18:12]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil hvetja til þess að skoðað verði ítarlega hvort kerfið veiti í rauninni þjónustuna. Hins vegar er ég algjörlega sammála þingmanninum að mikilvægt sé að þjónustan sé veitt innan skólanna, að hluta til a.m.k. Ég sé fyrir mér að það tryggi mun meiri samfellu að hún sé á ábyrgð heilbrigðiskerfisins þótt hún væri veitt innan skólanna, því að jafnvel þótt viðkomandi nemandi sem þarf á sálfræðiþjónustu að halda fái þjónustuna getur vel verið að hann hætti í skólanum og þá þarf hann áfram aðgang að sömu þjónustu.

Sem dæmi nefni ég skólahjúkrunarfræðinga. Þeir eru starfsmenn heilsugæslunnar þó að þeir veiti þjónustu innan skólanna. Þeir sinna grunnskólum og framhaldsskólum og fleirum. Eins tel ég að þetta sé eitt af því sem væri hægt að horfa til í vinnu geðheilbrigðisáætlunar, að vinna að því að finna lausn fyrir framhaldsskóla og háskólanemendur, eða í rauninni ungmenni

Það er gott að heyra þessar vangaveltur. Ef málið fer til velferðarnefndar eru heilbrigðismálin og velferðarmálin þar, meðan menntamálin eru í allsherjar- og menntamálanefnd.