148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum.

112. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og góða ábendingu. Ég held að hún sé réttmæt. Ég held að við og svo sem allir þurfum að gæta að því orðfæri sem við notum þegar við fjöllum um annað fólk, tala nú ekki um fólk sem á við einhvers konar áskoranir að etja sem eru miskrefjandi og miserfiðar. Þannig að ég tek algjörlega undir með þingmanninum að það þurfum við að gera.

Síðan þakka ég líka ábendinguna með þessa könnun eða rannsókn sem hann benti á. Vandamálið er mjög umfangsmikið. Það þarf að takast á við það. Ég kallaði það í framsögu minni að spara eyrinn og kasta krónunni, ég vona nú að engir taki þá tilvitnun upp með öðrum hætti, því að ég tala stundum um evru.

Ég held að þetta sé mergur málsins. Við þurfum að gæta þess að við séum ekki að spara eyrinn og kasta krónunni. Ég held að við gerum það dálítið mikið í þessum málaflokki, því miður. Eins og kemur fram í greinargerðinni og kom fram í minni ræðu getur skaðinn, ef ekki er gripið tímanlega inn í, orðið svo mikill. Hann er bæði mikill í beinhörðum peningum, en hann er líka mjög mikill í lífi þess fólks sem ekki fær viðeigandi aðstoð fljótt og vel og aðstandenda o.s.frv., þannig að ég held þetta eigi mjög vel við þarna. Eins og allar tölur sýna er þetta mjög alvarlegt vandamál sem við verðum að taka á.