148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á XXV. kafla almennra hegningarlaga.

Aðdragandinn er sá að í sex dómum á árinu 2012–2017 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að því að niðurstaða íslenskra dómstóla í málum sem varða meintar ærumeiðingar fjölmiðla brjóti í bága við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um vernd tjáningarfrelsis. Þetta er ákveðið merki um að gjá hafi myndast á milli þeirra réttinda sem okkur eru tryggð í alþjóðasáttmálum og refsiákvæðanna í nefndum XXV. kafla almennra hegningarlaga. Því leggja þeir þingmenn sem á málinu eru, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, Þorsteinn Víglundsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson og Karl Gauti Hjaltason, fram þess þingsályktunartillögu um að fela dómsmálaráðherra að endurskoða umræddan kafla hegningarlaganna.

Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta fram fara endurskoðun á XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs í því skyni að meiðyrðalöggjöf uppfylli skilyrði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og ákvæðinu hefur verið beitt í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á XXV. kafla almennra hegningarlaga á 149. löggjafarþingi.“

Það er rétt að taka það fram að þessi þingsályktunartillaga var lögð áður fram á 146. löggjafarþingi og fyrsti flutningsmaður hennar var þáverandi hv. varaþingmaður Viðreisnar, Dóra Sif Tynes.

Í greinargerð með ályktuninni er vísað til átta dómsmála sem eiga það sameiginlegt að varða ummæli í garð nafngreindra einstaklinga um að þeir hefðu framið refsivert athæfi, væru undir rannsókn um slíka háttsemi eða tengdust glæpastarfsemi. Íslenskir dómstólar töldu ummælin refsiverðar aðdróttanir án fullnægjandi heimilda og felldu dóma í samræmi við það. Í öllum átta tilvikunum var fjölmiðlafólkinu gert að greiða stefnendum miskabætur og málskostnað, auk þess sem hin umdeildu ummæli voru dæmd dauð og ómerk. Þessi átta mál voru kærð til Mannréttindadómstólsins. Í sex tilvikum taldi dómstóllinn íslenska dómstóla ekki hafa gætt meðalhófs við beitingu hegningarlaga líkt og áskilið er í 10. gr. mannréttindasáttmálans.

Virðulegi forseti. Miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni og öflug starfsemi fjölmiðla er hornsteinn lýðræðislegra samfélaga. Meiðyrðamál sem þessi eiga það líka sammerkt að kosta fjölmiðla bæði peninga og tíma. Þar er vægast sagt ekki alltaf í djúpa vasa að sækja eins og alkunna er, ekki síst á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Legg ég þar sérstaka áherslu á hversu þungt þetta er fyrir minni fjölmiðla sem er þorrinn af þeim fjölmiðlum sem starfa hér á markaði.

Það er töluverð ógn við lýðræðissamfélagið ef það verður einfalt að þagga niður í blaðamönnum með því að veifa framan þá málssókn. Það er ljóst að það umhverfi sem íslenskir fjölmiðlar búa við er ekki alltaf eins og best verður á kosið. Nýlegt lögbann, sem féll þó úr gildi nýlega, er gott dæmi um það.

Rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi, þ.e. þeirra einkareknu, er svo enn önnur umræða. Hún var reyndar nýlega tekin hér í þessum sal í kjölfar skýrslu sem nýlega kom út um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ég á frekar von á því að það hafi verið upphafið á slíkri umræðu.

Við sem alþingismenn þurfum að tryggja að lög á hverjum tíma standist kröfur mannréttindasáttmálann og það felur í sér að uppfæra gömul lög til að endurspegla grundvallarmannréttindi á borð við tjáningarfrelsi. Lagaumhverfi fjölmiðla þarf að vera þannig að þeir geti sinnt því mikilvæga hlutverki sínu að veita okkur sem hér störfum nauðsynlegt aðhald.

Í október 2017 gaf Mannréttindastofnun út skýrslu um dóma Mannréttadómstóls Evrópu um tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks á Íslandi á árunum 2012–2017, skýrslu sem var unnin fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Helstu niðurstöður í þeirri skýrslu voru þær að í fyrsta lagi litu íslenskir dómstólar ekki alltaf til allra þeirra sjónarmiða sem þeir eiga að taka afstöðu til samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstólsins þegar metið er hvort takmörkun á tjáningarfrelsi sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Stundum vanræktu íslenskir dómstólar samkvæmt skýrslunni að taka afstöðu til þess hvort þau málefni sem voru til umfjöllunar fjölmiðla hefðu átt erindi við almenning eða ekki. Ekki var alltaf tekin afstaða til stöðu og fyrri hegðunar þeirra einstaklinga sem fjallað var um og þá var í sumum málanna vanrækt að taka afstöðu til vinnubragða fjölmiðla sem báru þess merki að fjölmiðlafólk hefði unnið störf sín í góðri trú og gætt jafnvægis í umfjöllun sinni. Í þeim málum sem skýrslan fjallaði um lagði Mannréttindadómstóllinn sjálfur oft mat á umrædd sjónarmið og benti á að þau stæðu til þess að ekki hefði verið nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks.

Svo áfram sé haldið með þessa skýrslu þá komst Mannréttindadómstóllinn í öðru lagi í nokkrum tilfellum að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks með því að gera það ábyrgt fyrir ummælum sem höfð voru eftir nafngreindum viðmælendum. Áréttaði dómstóllinn að í dómum hans hefði áður verið komist að þeirri niðurstöðu að sterkar ástæður þyrftu að koma til svo blaðamenn yrðu látnir bera ábyrgð á slíkum tilvikum. Þar sem slíkar ástæður hefðu ekki verið fyrir hendi var talið að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi viðkomandi blaðamanna og ritstjóra.

Í þriðja lagi fann Mannréttindadómstóllinn að því hvaða skilning íslenskir dómstólar lögðu í ýmis þeirra ummæla er málin lutu að. Virðist þannig sem Mannréttindadómstóllinn hafi verið ósammála mati íslenskra dómstóla á efnislegu inntaki sumra ummælanna. Þetta ólíka mat hafði þau áhrif annars vegar að Mannréttindadómstóllinn taldi að ummælin hefðu ekki verið jafn meiðandi og íslenskir dómstólar lögðu til grundvallar. En hins vegar að ummælin hefðu átt sér nægilega stoð í upplýsingum sem lágu fyrir því fjölmiðlafólki sem í hlut átti.

Að lokum þetta, herra forseti. Flutningsmenn benda í lok greinargerðar með þingsályktunartillögunni á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að beiting ákvæða meiðyrðalöggjafarinnar samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra ákvæða og því mikilvægt að við endurskoðun meiðyrðalöggjafarinnar sé gætt að því að sjálfstæði fjölmiðla verði tryggt og í fullkomnu samræmi við kröfur stjórnarskrár og skuldbindingar samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, svo sem mannréttindasáttmála Evrópu.“

Ég hef lokið máli mínu og óska þess að málið fái skjóta en jafnframt vandlega og jákvæða yfirferð í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd, geri ég ráð fyrir.