148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[19:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir svarið. Eins og hún kom inn á í ræðu sinni eru í raun ekki lengur neinar læknisfræðilegar forsendur, að minnsta kosti ekki almennilega viðurkenndar, fyrir að gera þessar aðgerðir á börnum í rútínu. Þingmaðurinn kom ágætlega inn á að í raun gætu einnig verið ýmsar hættur fólgnar í að gera aðgerðirnar, einkum og sér í lagi ef þær væru gerðar við ófullkomnar aðstæður þar sem ekki væri gætt að hreinlæti eða þess háttar.

Í því sambandi langar mig að inna þingmanninn eftir hvort hún hafi um það einhverjar upplýsingar eða vitneskju hvort verið sé að gera eða hafi verið gerðar slíkar aðgerðir annars staðar en á heilbrigðisstofnunum á Íslandi, þá væntanlega án eftirlits þar til menntaðra starfsmanna, skulum við segja. Því að þó að aðgerðin sé afar einföld, alla vega þegar hún er gerð á mjög ungum börnum, er engu að síður hægt að lenda í vandræðum eins og þingmaðurinn kom inn á. Það geta komið upp blæðingar, komið upp sýkingar, þvagrásin getur legið illa í getnaðarlim drengja og það getur skaðað hana að gera svona aðgerð ef hún er gerð af einhverjum sem ekki kann almennilega til verka. Mig langar að inna þingmanninn eftir hvort hún viti til þess að slíkt hafi komið upp hér.