148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

greiðslur til þingmanna.

[15:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fékk að sjá drög að hugmynd um hvernig ætti að birta þennan kostnað þingmanna. Það var svipað fyrirkomulag og svörin við fyrirspurnunum sem ég var með. En nú áttum við samræður í Kastljósi, virðulegi forseti, þar sem við komum, að því er mér skildist, með nokkurn veginn sama hug til þess að birta sundurliðunina eins og hún lægi fyrir varðandi hverja ferð fyrir sig. Mig langar til að hvetja forseta til að halda áfram á þeirri braut sem virtist vera mörkuð í Kastljósi, þ.e. að hver ferð sem borgað er fyrir sé sérstaklega tilgreind, kílómetrafjöldi, að tilgangur hverrar ferðar liggi fyrir o.s.frv. Þetta á ekki að vera neitt leyndarmál. Þetta er gert annars staðar. Mér finnst augljóst að við tökum þetta upp líka.