148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

greiðslur til þingmanna.

[15:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á þessari uppákomu undir þessum lið, fundarstjórn forseta, í þessu samhengi. Ég hef ekki heyrt á nokkrum þingmanni hér á hinu háa Alþingi að einhver andstaða sé við að birta allar upplýsingar sem hér er verið að reyna að ræða. Hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls er vel kunnugt um að málið var tekið til umræðu í forsætisnefnd í morgun. Málið var líka rætt á fundi formanna þingflokka.

Þetta mál er í farvegi og markmiðið er að upplýsa þetta allt saman. Það er dæmigerð popúlistauppákoma, virðulegur forseti, í mínum huga að koma hér og eyða störfum þingsins í þetta, þegar verið er, af hálfu forseta þingsins og yfirstjórnar þingsins, að taka á þessu á málefnalegum grunni með það að markmiði að allar þessar upplýsingar verði upp á borði.

Það hefur enginn þingmaður mælt á móti því. Við erum öll sammála um að það sé reynslan af þessu. Þessi óþarfauppákoma hér skilar engu meiru í hús í þeim efnum.