148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég, eins og fleiri þingmenn, fór um Suðvesturkjördæmi. Við fórum í heimsókn til sveitarfélaganna og áttum mjög gagnlegar samræður við fólkið þar og fengum gagnlegar upplýsingar. Það var nokkurn veginn undantekningarlaust þannig, hvort sem við vorum heima í Hafnarfirði, úti á Nesi eða uppi í Mosó, að skilaboðin um endurbætur á sviði menntamála voru skýr, líka á sviði skipulagsmála. En samgöngurnar voru lykilatriði í öllum skilaboðunum til okkar frá sveitarfélögunum. Hvort sem við höfum skoðun á borgarlínu eða ekki þá voru samgöngumálin í stóra samhenginu nefnd sérstaklega.

Við erum með til umræðu að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, setja Reykjanesbrautina í stokk í Garðabæ og talað er um stokkalausnir í Reykjavík o.s.frv. Þess vegna skýtur það nokkuð skökku við þegar við höfum núna ríkisstjórn sem mynduð var um að byggja upp innviði í landinu, til þess að efla m.a. samgöngur í landinu, að við heyrum það frá hæstv. samgönguráðherra að ekki eigi að sýna á spilin varðandi samgönguáætlun fyrr en einhvern tímann í haust. Það er ekki eins og hæstv. samgönguráðherra hafi komið að tómum kofanum eftir forvera sinn í starfi, hv. þm. Jón Gunnarsson, síður en svo. Ég veit að þar var margt í pípunum. Þannig að við hljótum að biðja hæstv. forseta um að ganga í lið með okkur þingmönnum og ýta á hæstv. samgönguráðherra að sýna á spilin, sýna samgönguáætlun, sérstaklega fyrir sveitarstjórnarkosningar. Ef athafnir fylgja orðum tel ég víst að það væri frekar kosningaplagg fyrir Framsóknarflokkinn heldur en hitt.

Þess vegna spyr ég mig núna: Af hverju er samgönguráðherra hræddur við að sýna samgönguáætlun? Voru kannski öll stóru orðin algjörlega innihaldslaus? Á ekki að bæta samgöngur hér á suðvesturhorninu eða úti á landsbyggðinni?

Það er ljóst að við í þinginu köllum eftir samgönguáætlun hið fyrsta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)