148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:17]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar ábendingar. Það er mönnum ljóst að ekki eru allir lögmenntaðir hér á þingi. Sem betur fer, segi ég samt. Það eru ákveðnir ósiðir sem verða til hjá löglærðum eins og t.d. það sem er höfuðsynd meðal okkar forritaranna, að endurtaka sig, í þessu tilfelli í lagasetningu og hafa sömu hlutina á mismunandi stöðum. En gott og vel. Ég skil þetta þó aðeins betur núna.

Ég samþykki jafnvel röksemdafærsluna um að innheimtumekanisminn muni kannski ekki verða afturvirkur þó svo að ég kunni ekki nánari skil á því og vona að það verði eitt af því sem skoðað verður við meðferð málsins í nefnd og í framhaldinu.

Það er afskaplega lítið meira um þetta að segja. Þetta er greinilega ekki eins arfaslæmt og ég hélt í fyrstu. Gott og vel. En ég ætti kannski að nota tækifærið og benda öllum háttvirtum lögfræðingum á DRY-skammstöfunina, sem þýðir, með leyfi forseta: „Don´t Repeat Yourself“ hjá forriturum. Það er afskaplega ágætt að hafa það í huga og vel til þess fallið að minnka líkurnar á því að þingmenn og jafnvel fólk úti í samfélaginu misskilji lög eða eigi erfitt með að átta sig á því hvernig þau virka. (Gripið fram í.)